Fékk símtal frá syni sínum úr logandi íbúðinni

29.09.2019 - 21:00
Mynd: Þór Ægisson / Þór Ægisson
Tveir piltar á unglingsaldri sluppu ómeiddir þegar eldur braust út í íbúð á þriðju hæð í fjölbýlishúsi við Jórufell í Reykjavík í gærkvöld. Árni Helgi Gunnlaugsson, faðir þeirra, sem var staddur í Vesturbænum, rauk af stað og stóð ekki á sama þegar hann kom að brennandi húsinu, því synir hans voru hættir að svara í símann. 

Sagði drengjunum að koma sér út

„Ég fæ símtal frá syni mínum þar sem hann segir mér að það sé kviknað í íbúðinni eða kviknað í rúmi inni í herbergi. Ég er vestur í bæ þegar ég fæ símtalið. Ég náttúrulega bruna af stað upp eftir og vissi ekki hversu mikill eldurinn væri. Ég var búinn að biðja hann um að slökkva í eldinum og hann sagði mér að rúmið væri farið að loga. Ég sagði þeim þá bara strákunum að koma sér út og hringja á slökkviliðið,“ þannig lýsir Árni því þegar hann heyrði fyrst af eldsvoðanum í íbúð hans. 

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / Grímur Jón Sigurðsson
Íbúar í Jórufelli

Ólafur Ingi Grettisson er varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu „Þegar við komum á staðinn með allan okkar mannskap þá logar út um glugga á annarri hæð. Það var töluvert mikill eldur í þessari íbúð en hann var staðbundinn í íbúðinni,“ segir Ólafur. 

Eldur fór um flest rými íbúðarinnar sem er stórskemmd eftir brunann. Húsið var rýmt en hætta var talin á að eldurinn tæki að breiðast út í nærliggjandi íbúðir. 

Vakin með fréttum af logandi húsinu

Slökkvilið naut liðsinnis Strætó og Rauða krossins við að hlúa að íbúum og finna þeim næturstað. Árný Ósk Hálfdánardóttir býr í íbúðinni á móti þeirri sem kviknaði í. Vinkona hennar sem dvaldi hjá henni vakti hana og þrjú börn hennar með fréttum af því að eldur logaði í húsinu. „Þannig að ég fer á lappir og ríf þær á fætur og gríp þær í fangið, hún tekur eina dóttur mína og stjúpson minn og við hlaupum út.“

Mynd: Þór Ægisson / Þór Ægisson
Árni Helgi Gunnlaugsson

„Ekki hægt að lýsa með orðum léttinum“

Á leið sinni í Breiðholtið reyndi Árni að hringja í syni sína en þeir svöruðu ekki símanum. „Þá vissi ég náttúrulega ekki hvort þeir voru ennþá inni í íbúðinni eða ekki. Ég talaði við varðstjóra þarna og hann vissi náttúrulega ekki neitt heldur því þá voru reykkafararnir inni. Og þá fyrir tilviljun rek ég augun í þá þar sem þeir standa þarna úti.“

„Þá rek ég augun í þá þar sem þeir standa og tala við lögregluþjón. Það er náttúrulega ekki hægt að lýsa því með orðum léttinum þegar ég sá þá. Þá kemst maður að því á þessu augnabliki hvað veraldlegar eigur skipta litlu. Við misstum náttúrulega allt okkar í þessum eldi.“

Greiðlega gekk að slökkva eldinn. Lögreglan tók við vettvangi eftir að slökkvistarfi lauk. Tæknideild lögreglunnar lauk rannsókn á vettvangi í dag. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi