Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Fékk neitun frá forlögunum en fólkið vildi þetta“

Mynd: RÚV / RÚV

„Fékk neitun frá forlögunum en fólkið vildi þetta“

15.12.2019 - 09:00

Höfundar

Þegar Einar Már Guðmundsson, einn fremsti rithöfundur þjóðarinnar, fetaði sín fyrstu skref inn á ritvöllinn fyrir fjörutíu árum vildi enginn gefa út ljóð hans. Hann lét mótlætið ekki stöðva sig og sá til þess að skáldskapur hans kæmist í ljóðelskar hendur með því að prenta þær út sjálfur og selja á götuhornum.

Fagnaðarerindið breiddist hratt út frá götuhornum bæjarins og Einar Már þurfti margsinnis að endurprenta hverja bók, slík var eftirspurnin. „Þetta var leiðin á tímum pönksins, fyrst enginn vildi gera þetta fyrir þig þá gerirðu þetta sjálfur. Maður fékk neitun frá stóru forlögunum sem vildu ekki gefa þetta út en fólkið vildi þetta,“ segir hann rogginn. Á meðal þeirra ljóðabóka sem Einar Már seldi á götuhornum fyrir fjörutíu árum voru bækurnar Sendisveinninn er einmana og Er einhver í kórónafötum hér inni? En þessar bækur eru illfáanlegar í dag og eru í raun orðnar að fágæta safngripum.

Nýverið kom út ný ljóðabók eftir Einar Má sem ber heitið Til þeirra sem málið varðar og er lýst sem ástríðufullu ávarpi til samtíðarinnar þar sem bjartir tónar og dimmir kallast á. Sjálfur segist hann leggja upp með það í bókinni að orða stórar spurningar í einföldu myndmáli. „Hún er um að reyna að finna sér stað í tilverunni, ég segi einhvers staðar að tilveran flæki lífið og gerir það stöðugt flóknara.

Hann viðurkennir að stíll hans og efnistök hafi þróast á þessum fjórum áratugum en að einhverja rödd megi greina í nýju ljóðunum sem einnig hljómuðu í hans fyrstu. „Það er einhver tónn sem fylgir mönnum frá upphafi. Maður notar raddir sem koma og raddir í ljóðum tjá oft stóran heim,“ segir hann. „Ég hef alltaf hrifist af þessum orðum hjá William Carlos Williams sem segir: Það er fátt að frétta í ljóðum. Engu að síður deyja margir á ömurlegan hátt vegna skorts á því sem þar er að finna.“

Ljóðið er á þennan hátt mikilvægur liður í báráttunni gegn tómleikanum að sögn Einars Más. „Tómleikinn er þetta stóra vandamál í nútímanum samanber sjálfsvíg og dauðsföll og öll þessi mál sem verið er að fást við. Það er oft vegna þess að það vantar póesíu í lífið,“ segir hann. „Menn eru oft að væla yfir því að ljóðabækur dreifist ekki nógu vel en ljóðið er rosalegt grundvallaratriði.“

Hægt er að hlýða á viðtal Egils Helgasonar við Einar Má og flutning skáldsins á völdum textum úr bókinni í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Óbærilegt að þegja með ókunnugum í bíl