Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fékk 10 mínútur til að upplýsa samstarfsmenn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Ásmundur Einar Daðason, ráðherrar í nýrri ríkisstjórn.
 Mynd: Björg Magnúsdóttir - RÚV
​​​​​​​Aðdragandinn að því að Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar varð umhverfisráðherra var býsna skammur. Hann lýsti honum í viðtali við Síðdegisútvarp Rásar tvö í dag, sem hann var í ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur iðnaðarráðherra og Ásmundi Einari Daðasyni félagsmálaráðherra.

„Það var nefnt við mig í gær hvort það kæmi til greina að minni hálfu að verða umhverfisráðherra. Ég sagði náttúrulega strax að ég yrði að sjá stjórnarsáttmálann. Ég fór því á kynninguna hjá flokksráði VG – ég er stofnfélagi í flokknum og því ekkert óeðlilegt við það. Katrín Jakobsdóttir hringdi síðan í mig aftur í gærkvöldi og við spjölluðum betur saman. Hún gerði það svo að tillögu sinni í morgun að ég yrði ráðherra og ég vissi um 12-leytið í dag að það yrði.“

Guðmundur segir að hann hafi gjarnan viljað segja fjölskyldu sinni og samstarfsfólki frá breyttum starfsvettvangi. „Ég hafði um 10 mínútur vegna þess að fór eiginlega strax í fréttirnar. Það dugði alveg. Þetta hefur verið áhugaverður dagur, við skulum orða það þannig.“

Líst vel á sáttmálann

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem heldur starfi iðnaðar,- nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, sagði að góður andi kæmi með ríkisstjórninni og hún hlakkar til verkefnanna. „Mér líst vel á stjórnarsáttmálann, hann er mjög ítarlegur en það er ótrúlega margt spennandi í honum. Hann er framsýnn og út frá mínum málaflokkum er hann alveg meiriháttar.“

Ásmundur Einar Daðason, sem tók í dag við embætti félagsmálaráðherra, segist einnig ánægður með stjórnarsáttmálanna. „Mér finnst almenn jákvæðni yfir þessu samstarfi og finn að það er gott traust, ekki aðeins á milli forystumanna flokkanna heldur tel ég að það geti líka myndast gott traust milli ríkisstjórnarflokkanna.

Nánar um verkefnin segir Ásmundur að þar séu mörg heit mál, eins og vinnumarkaðsmál, húsnæðismál og jafnréttismál, auk málefna aldraðra, öryrkja og fatlaðs fólks. „Verkefnið hjá mér er að kynnast því sem er í gangi í ráðuneytinu, fara betur yfir stjórnarsáttmálann og sjá hvernig hægt er að samtvinna betur við hann þau verkefni sem eru í ráðuneytinu. Ég mun ekki sitja auðum höndum við að koma þessum verkefnum af stað.“

Gott að stefna á kolefnishlutleysi

Guðmundur Ingi segir að mörg mál í stjórnarsáttmálanum heyri undir sitt ráðuneyti. „Það eru stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, það þarf að ráðast í frekari friðlýsingar samkvæmt verndarflokki rammaáætlunar. Og svo eru það loftslagsmálin, en ég var mjög ánægður að sjá að stefnan er að fylgja ekki einvörðungu því sem önnur Evrópuríki ætla að gera heldur stefna á ákveðið kolefnishlutleysi. Það þýðir að þegar búið er að draga eins mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda og hægt er sé reynt að binda afganginn sem upp á vantar til að við getum staðið á núlli í jarðvegi, gróðri endurheimt votlendis o.s.frv.“ Guðmundur fagnar einnig undirbúningi að orkustefnu – það hafi vantað stefnu um hversu mikið eigi að virkja og í hvað það eigi að fara.

Þórdís fagnar því að mikil áhersla sé á nýsköpunarmál í stjórnarsáttmálanum. „Ég verð í samstarfi við mörg ráðuneyti í mínum málum og það er skemmtilegt. Þá erum við með orkumálin og iðnaðinn almennt og svo er það dreifikerfi raforku, sem er áskorun en er samt orðin svo tímabær og ég hlakka til að takast á við það.“

Hún ráðleggur nýjum ráðherrum að vera maður sjálfur, hafa gaman af þessu og gera sér grein fyrir því að enginn viti allt.

Pússaði krossa í Þýskalandi

Ráðherrarnir voru svo spurðir í lokin hvaða starf væri það leiðinlegasta sem þeir höfðu unnið. Þar átti Guðmundur Ingi klárlega vinninginn. „Þegar ég var yngri dvaldi ég í klaustri í Þýskalandi í þrjá mánuði. Þar var mitt hlutverk að pússa litla krossa. Það dó sennilega eitthvað inni í mér við þetta. Ég bað um að fá að gera eitthvað annað og þá fékk ég að gera silfurkeðjuhálsfesti fyrir einhvern biskup einhvers staðar í Þýskalandi. Ég hugsaði: Nú er ég búinn að ná toppnum!“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV