Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Feðginin í Rio Grande: Áhrif átakanlegra mynda

epaselect epa07671559 The lifeless bodies of a presumed migrant and his baby lie on a bank of the Rio Grande in Matamoros, on the US border, in the state of Tamaulipas, Mexico, 24 June 2019. Civil Protection and Police authorities of Mexico found on  24 June the bodies of a man, of Salvadoran nationality according to the authorities, of 25 years and his daughter of 1 year and 11 months, who are presumed to have drowned when they tried to cross towards the United States through the border Grande River.  EPA-EFE/Abraham Pineda-Jácome ATTENTION EDITORS: GRAPHIC CONTENT
 Mynd: EPA-EFE - EFE
„Ef þessi mynd fær okkur ekki til að endurmeta stöðuna, ef hún hreyfir ekki við þeim sem taka ákvarðanirnar þá er samfélag okkar illa statt.“ Þetta segir Julia le Duc, blaðamaður á dagblaðinu La Jornada sem gefið er út í mexíkósku landamæraborginni Matamoros. Skammt frá borginni rennur stórfljótið Rio Grande og handan þess eru Bandaríkin. Á mánudagsmorgun tók Le Duc átakanlega mynd sem stór hluti þeirra sem fylgjast með heimspressunni hefur líklega séð. En breytir hún einhverju?

Myndin hreyfði við ljósmyndaranum

Við sefgróinn bakka árinnar fljóta lík feðginanna Oscars Alberto Martínez Ramirez og Valeriu frá El Salvador innan um bjórdósir. Martínez var 25 ára, Valeria tæplega tveggja. Martínez hafði sett dóttur sína inn á stuttermabolinn sinn til að straumurinn tæki hana ekki, smá hönd hennar liggur utan um háls hans. 

Myndin gefur innsýn í örvæntingarfullan veruleika fólks á flótta og mexíkóskir fjölmiðlar hafa líkt henni við aðra mynd sem haustið 2015 var dreift um netheima, myndina af líki Alans Kurdi, þriggja ára gamals sýrlensks drengs sem drukknaði á Miðjarðarhafi.

Julia le Duc hefur sagt fréttir af lögreglumálum árum saman og oft komið á vettvang slysa eða glæpa, hún hefur séð mörg lík, segir það ekki lengur hafa mikil áhrif á sig, en það að sjá feðginin í ánni hafi verið öðruvísi, hreyft við henni, það hvernig þau virtust hafa reynt að halda hvort í annað þar til yfir lauk.

Le Duc greindi frá atburðarásinni við landamærin í viðtali við Guardian. Hún fékk veður af því á sunnudagskvöld að við árbakkann, Mexíkómegin, væri harmi slegin kona, sem segði strauminn hafa hrifsað dóttur sína með sér. Þetta var Tania Vanessa Ávalos, kona Martinez og móðir litlu stúlkunnar.

Þráðu að komast til Bandaríkjanna

Fjölskyldan hafði dvalið í suðurhluta Mexíkó í tvo mánuði, sótt um vegabréfsáritun af mannúðarástæðum sem gerir þeim kleift að dvelja og vinna í Mexíkó í eitt ár, en draumurinn var að komast til Bandaríkjanna, þar vildu þau sækja um hæli. Fjölskyldan tók því rútu til Matamaros, kom þangað á sunnudagsmorguninn og fóru rakleiðis að brúnni sem skilur að Mexíkó og Bandaríkin. Þar var þeim sagt að bandaríska innflytjendaskrifstofan væri lokuð um helgar og að auki kæmust þau ekki að í bráð, það væri svo löng bið eftir viðtali þar sem þau gætu sótt um alþjóðlega vernd. Julia le Duc segir að fyrir nokkrum mánuðum hafi 1800 manns verið á biðilsta eftir viðtali við fulltrúa bandarískra yfirvalda í Matamoros, nú bíði einungis 300 en biðin sé samt sem áður löng, þar sem einungis þrjú viðtöl fari fram í hverri viku. 

Þegar örvæntingin ræður

Le Duc segir örvæntingarfullt fólk grípa til örvæntingarfullra ráða, þessar fjölskyldur, sem reyni að komast í skjól í Bandaríkjunum eigi ekkert og þær hætti öllu í von um betra líf.  Hún segir að á leiðinni til baka frá brúnni, hafi Martinez horft á ána og stungið upp á því við Ávalos að fara þar yfir. Heimildum ber ekki saman um hvað gerðist næst. Le Duc segir að atburðarásin hafi verið á þennan veg: Fyrst hafi Martinez synt yfir Rio Grande með dóttur sína á bakinu, hann hafi skilið hana eftir á bakkanum Bandaríkjamegin og haldið aftur yfir til að ná í konuna sína, dóttir hans hafi ekki haldið kyrru fyrir heldur elt hann aftur út í ána, hann hafi þá snúið við og reynt að bjarga henni en þá hafi straumurinn hrifsað þau bæði með sér. Í grein New York times er atburðarrásinni lýst öðruvísi. Þar segir sem fyrr að Martinez hafi synt yfir með dóttur sína á bakinu en að kona hans, Ávalos, hafi verið á eftir honum, á baki fjölskylduvinar. Þegar eiginmaður hennar nálgaðist bakkann hinum megin hafi hún veitt því athygli að hann væri farinn að þreytast í úfnu vatni árinnar. Hún hafi þá ákveðið að synda aftur að árbakkanum í Mexíkó og þaðan hafi hún séð eiginmann sinn og dóttur hverfa í ána. 

Hvetur fólk til að vera um kyrrt

epa07671558 A member of the Mexican Police patrol the area where the dead bodies of a presumed migrant and his baby were found on a bank of the Rio Grande in Matamoros, on the US border, in the state of Tamaulipas, Mexico, 24 June 2019. Civil Protection and Police authorities of Mexico found on 24 June the bodies of a man, of Salvadoran nationality according to the authorities, of 25 years and his daughter of 1 year and 11 months, who are presumed to have drowned when they tried to cross towards the United States through the border Grande River.  EPA-EFE/Abraham Pineda-Jácome
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Mynd með færslu
 Mynd: Julia Le Duc - AP
Lögreglumaður á vettvangi þar sem feðginin fundust.

Rio Grande markar landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna á hátt í 2000 kílómetra kafla, le Duc segir að þetta grugguga fljót láti lítið yfir sér, virðist jafnvel grunnt en það sé fjarri sanni, víða séu sterkir strengir og svelgir. Í Guardian segir að það hafi verið miklar leysingar, það hafi ekki verið meira í fljótinu í 20 ár. Leitað var að feðginunum langt fram á sunnudagskvöld en þau fundust ekki fyrr en morguninn eftir.

Utanríkisráðherra El Salvador, Alexandra Hill, bað í dag landa sína að vera um kyrrt og vinna með stjórnvöldum að því að leysa efnahagsvanda ríkisins. Áhættan sé ekki þess virði.

Sameinuðu þjóðirnar telja að á árinu hafi 170 látist við að reyna að komast yfir landamærin, þar af 13 börn og í fyrra létust hundruð á sömu vegferð. Sumir drukkna í ánni, aðrir örmagnast í eyðimörkinni. Myndin af líkum Martínez og Valeríu er því táknræn fyrir örlög fleiri. 

Flýja gengi og fátækt

Í úttektum breska ríkisútvarpsins BBC kemur fram að síðastliðin tuttugu ár hafi fækkað jafnt og þétt hópi þeirra sem hafa verið handteknir við að reyna að komast ólöglega frá Mexíkó til Bandaríkjanna, í fyrra voru tæplega 400 þúsund gripnir á landamærunum, árið 2000 var hópurinn fjórfalt stærri. Í tíð Bush komu að meðaltali mun fleiri en í tíð Obama og í tíð Trump hefur fjöldinn verið svipaður. Nú virðist þó vera að fjölga aftur. Þá hefur fjölgað í hópi þeirra sem rena að sækja löglega um hæli í Bandaríkjunum. Flestir koma nú frá Gvatemala, Hondúras og El Salvador og eru að flýja sára fátækt og gengjaofbeldi. haft er eftir sérfræðingi í málefnum flóttamanna að áður hafi flestir í þessum hópi verið ungir karlmenn en að frá 2014 hafi færst í aukana að fjölskyldur legðu á flótta undan ofbeldi. Þetta hafi átt við um marga í þeim stóra hópi sem kom yfir landamærin með bílalest í nóvember í fyrra. Í umfjöllun BBC er líka vakin athygli á því að flestir ólöglegir innflytjendur í Bandaríkjunum eru ólöglegir vegna þess að þeir hafa dvalið lengur í landinu en þeir hafa heimild til, flestir þeirra eru frá Kanada, næstflestir frá Mexíkó. 

Ekkert umburðarlyndi

epa07675171 US President Donald J. Trump speaks during the Faith and Freedom Coalition's Road to Majority conference in Washington, DC, USA, 26 June 2019. Trump said that substantial additional US tariffs would be placed on goods from China if there's no progress on a trade deal after his planned meeting with Chinese counterpart Xi Jinping at the G20 Summit in Japan.  EPA-EFE/Andrew Harrer / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Bloomberg POOL
Donald Trump, Bandaríkjaforseta, er tíðrætt um mikilvægi þess að stöðva innrás fólks frá ríkjum Mið-Ameríku inn í Bandaríkin.

Donald Trump Bandaríkjaforseti, hefur í tíð sinni í embætti, lagt mikla áherslu á að stöðva það sem hann kallar innrás fólks frá ríkum Mið- og Suður-Ameríku. Trump hefur farið hörðum orðum um þennan hóp, veigrar sér ekki við því að kalla þá sem reyna að komast yfir landamærin glæpamenn, nauðgara eða hryðjuverkamenn. Veggurinn sem nú rís við landamæri Mexíkó var eitt af stóru kosningaloforðunum og Trump berst um á hæl og hnakka við að fá hann fjármagnaðan. Trump hefur því gripið til fleiri aðgerða í herferð sinni. Í fyrra boðaði hann harða stefnu, ekkert umburðarlyndi. Sú stefna varð meðal annars til þess að börn voru skilin frá foreldrum sínum, sem voru ákærðir og hnepptir í varðhald við komuna til landsins.

Börn vistuð við hörmulegar aðstæður

Þó hann hafi dregið í land með þá stefnu í kjölfar harðrar gagnrýni er enn fjöldi barna vistaður í sérstökum búðum, eftirlitsmenn sem könnuðu nýlega aðstæður í einum þeirra segja ástandið þar hörmulegt og ekki börnum bjóðandi. Börnin séu læst inni í klefum, opið salerni í miðjunni, börn undir tíu ára annist ungabörn, hreinlæti og næringu sé ábótavant, mikil þrengsli og mörg barnanna sýni einkenni áfallastreituröskunar. Málið hefur vakið reiði vestanhafs og starfandi yfirmaður tolla- og landamæravörslu sagði af sér í vikunni. Trump hefur lagt hart að stjórnvöldum í Mexíkó að koma í veg fyrir að fólk freisti þess að fara ólöglega yfir landamærin, meðal annars hótað refsitollum, og nýlega voru 15 þúsund mexíkóskir þjóðvarðaliðar því sendir að landamærunum. Þá má nefna aðgerðir sem hægja á afgreiðslu hælisumsókna við landamærin, aðeins lítill hópur fær að sækja um daglega, talið er að þetta leiði til fleiri dauðsfalla því sumir geti ekki hugsað sér að bíða lengur allslausir í Mexíkó eða við erfiðar aðstæður í flóttamannabúðum og reyni hættulegri leiðir til að komast yfir landamærin. Andrés Manúel López Obrador, forseti Mexíkó er einn þeirra sem tengir dauðsföll á landamærunum þessari stefnubreytingu. 

Kenna Trump um

Margir forsetaframbjóðendur úr flokki Demókrata hafa í dag kennt stefnu Trump um örlög þeirra. Trump hefur sjálfur ekki minnst á myndina en sagði á Twitter að demókratar gæfu ekkert fyrir öryggi á landamærunum, þeir vildu einfaldlega opna þau og þar með stuðla að ofbeldisfullum glæpum, eiturlyfjasmygli og mansali. 

Demókratar eru í meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, og samþykktu í gær að veita fjórum og hálfum miljlarði bandaríkjadala í mannúðaraðstoð við landamærin en ólíklegt þykir að tillagan hljóti náð fyrir augum öldungadeildarinnar, þar sem Repúblikanar eru í meirihluta. 

Breytti myndin af Alan Kurdi einhverju?

Í grein Guardian kemur fram að andstaða íbúa Mexíkó við komur flóttafólks frá Mið-Ameríku hafi farið vaxandi undanfarið en myndin af feðginunum hafi hreyft við mörgum. Þá hafi myndin vakið mikil viðbrögð í Bandaríkjunum. Á hún eftir að hafa áhrif? Því er erfitt að svara en árið 2016 reyndi Mukul Devichand, pistlahöfundu á BBC, að svara því hvort myndin af Alan Kurdi, dreng sem drukknaði á miðjarðarhafi og milljónir sáu á samfélagsmiðlum hefði einhverju breytt.

Eins og guð hefði sett ljós í myndina 

Mynd með færslu
 Mynd: epa
Líki Alans Kurdi skolaði upp að ströndum Tyrklands í byrjun september 2015.

Devichand telur myndina hafa ýtt undir vinsældir myllumerkisins Flóttamenn velkomnir eða Refugees Welcome, en þær höfðu farið vaxandi áður en Kurdi lést. Þess má geta að samfélagsmiðla framtak Bryndísar Björgvinsdóttur hér á landi, Kæra Eygló - Sýrland Kallar, fór af stað nokkrum dögum áður en myndin af Kurdi birtist. 

Devichand segir orðanotkun á samfélagsmiðlum hafa breyst í kjölfar myndbirtingarinnar, fleiri hafi farið að tala um flóttafólk, sem felur í sér viðurkenningu á að fólkið eigi rétt á vernd, og færri um förufólk. Þá hafi fjölgað í hópi sjálfboðaliða sem reyndu að koma fólki á flótta til aðstoðar, til dæmis þegar það kom að landi á grískum eyjum eða reyndi að komast Balkanleiðina til ríkja Evrópusambandsins. Áður hafi fólk þurft að ganga langa leið, að næsta þorpi, til að fá aðstoð. Fólki virðist sumsé hafa orðið umhugaðra um flóttafólk og sýnt þá umhyggju í verki. 

Myndin virðist ekki hafa dregið úr þeim sem hugðu á flótta. Það fjölgaði áfram í hópi þeirra sem reyndu að flýja sjóleiðina til Evrópu og sömuleiðis fjölgaði dauðsföllum. En hvað um pólitíkina? Devichand segir að fyrstu vikurnar hafi margir vestrænir leiðtogar minnst á myndina og sumir jafnvel boðað stefnubreytingu, sem ekki var alltaf staðið við þannig hafi bresk stjórnvöld sagst ætla að taka við 20 þúsund Sýrlendingum. Ári síðar hafi sá kvóti ekki verið fylltur, þá nefnir hann að mörg ríki í Austur-Evrópu hafi skömmu eftir að myndin birtist lokað landamærum sínum. Hann vitnar í frænku Kurdis, Timu Kurdi sem býr í Kanada og kom að því að fjármagna ferð fjölskyldunnar yfir hafið. Skömmu eftir að myndin birtist sagði hún að það væri eins og guð hefði sett ljós sitt í hana til að vekja heiminn. Ári síðar hafði hún minni trú á því að myndin af frænda hennar yrði til þess að bylta umræðunni, allt hefði færst aftur í sama horf og staðan í Sýrlandi versnað. Í samtali við Guardian sagðist hún þó telja að í Kanada hefði myndin opnað augu stjórnvalda en Justin Trudeau hét því í október 2015, þá nýorðinn forsætisráðherra, að taka við 25 þúsund flóttamönnum frá Sýrlandi. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV