Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

FEB fær viku til þess að skila greinargerð

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Lögmenn kaupenda íbúða við Árskóga í Breiðholti lögðu fram aðfararbeiðnir fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Dómari veitti Félagi eldri borgara viku frest til þess að gera grein fyrir vörnum sínum.

Vanalega er frestur til þess að skila greinargerð þegar aðfararbeiðni er lögð fram tvær vikur, en vegna málavaxta var ákveðið að fresturinn yrði styttur. Lögmenn íbúðareigendanna tveggja sem lögðu fram aðfararbeiðnirnar vildu að fresturinn yrði skemmri og að málið yrði afgreitt í vikunni. Dómari ákvað hins vegar þá málamiðlun að veita frest til miðvikudagsins í næstu viku.

„Mér fannst nú Félag eldri borgara fá full langan frest til að skila sínum vörnum í þessu máli vegna þess að eins og málið horfir við okkur þá hefur félagið engar varnir. Því ber að afhenda þessar íbúðir sem kaupsamningarnir kveða á um og minn umbjóðandi hefur greitt kaupverðið til þess að fá íbúðina afhenda. Ég veit ekki hvaða hagsmunum félagið er að þjóna eða hverra hagsmuna það er að gæta með því að draga þetta á langinn,“ sagði Sigurður Kári Kristjánsson, einn lögmanna íbúðarkaupendanna.

Daði Bjarnason, lögmaður Félags eldri borgara, vísaði í 31. grein laga um fasteignakaup og sagði félagið ekki geta efnt gerðan kaupsamning á íbúðum við Árskóga. Í lagagreininni er fjallað um kröfu kaupenda og seljenda um efndir kaupsamninga, ef óeðlilegur dráttur eða óhagræði og kostnaður hlýst af.

Daði segir að Félag eldri borgara sé að reyna að leita sátta og þess vegna geti staðan breyst. Sáttatilboð Félags eldri borgara hafi áhrif á hvernig málið þróast. Samkvæmt sáttatillögunni greiðir hver kaupandi 37 prósent minna en áður hafði verið gerð krafa um. 

„Það er búið að vera að vinna í þessum tillögum núna samfleytt í sjö til tíu daga og það er auðvitað þannig að það er búið að vera gríðarleg vinna að ná þessum kostnaði niður og fá aðra til að koma að borðinu,“ segir Daði.

Sigurður Kári er ósammála því að sáttatilboðið hafi áhrif. „Þarna er verið að bjóða afslátt af kröfu um ofgreiðslu. Félagið hefur engan rétt á að krefjast greiðslna umfram það sem samið var og þegar það er verið að veita afslátt af einhverju sem ekki er réttmætt þá er það alveg jafn ólögmætt og fyrri krafan. Öllu má nú nafn gefa,“ segir hann.