Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

FEB býður kaupendum í Árskógum sættir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni ætlar að bjóða kaupendum íbúða við Árskóga í Breiðholti að undirrita skilmálabreytingu vegna kaupsamninga. Félagið hafði krafið kaupendur um hærri greiðslu en samið hafði verið um. Samkvæmt sáttatillögunni greiðir hver kaupandi 37 prósent minna en áður hafði verið gerð krafa um. Byggingarnefnd félagsins hefur óskað eftir því að stíga til hliðar vegna málsins.

Kostnaður við íbúðir sem félagið lét reisa fór 401 milljón fram úr áætlun. Í tilkynningu frá stjórn félagsins segir að í kjölfar viðræðna síðustu daga við framkvæmdar- og fjármögnunaraðila byggingarinnar hafi félagið samið um að fá afslátt af kostnaðarverði íbúðanna. Þá leggi félagið einnig sjálft til fjármuni til sáttarinnar.

Það verða því um 250 milljónir króna sem dreifast á kaupendur í stað 401 milljónar eins og staðan hefur verið á síðustu dögum. Í tilkynningu félagsins segir jafnframt að hækkun á íbúð sem áður nam 7,5 milljónum verður 4,4 milljónir króna. 

Byggingarnefnd félagsins hefur óskað eftir því að stíga til vegna málsins til að stuðla að sátt. „Ljóst er að draga verður lærdóm af þeim afdrifaríku mistökum sem gerð voru í tengslum við verðlagningu og samninga vegna íbúðanna. Endurskoða þarf með hvaða hætti staðið er að framkvæmdum sem þessum,“ segir í tilkynningunni. Stjórnin félagsins ætlar að láta rannsaka hvernig mistökin áttu sér stað. Félagið biður alla þá innilegrar velvirðingar sem hafa þurft að búa við óvissu vegna mistakanna.