„Fátt jólalegt og kósí við þetta veður“

15.12.2019 - 11:42
Mynd: Rúv / Silfrið
„Í rauninni má segja að við höfum verið mjög heppin að það varð ekki meiri háttar óhapp eða meiri háttar slys á fólki því að það hefði, í mörgum tilfellum, ekki verið nokkur leið fyrir fólk að koma skilaboðum áleiðis; að hringja í neyðarlínuna, hringja á aðstoð eða fá hjálp,“ segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

„Nú þarf eitthvað að gerast. Ég held að það sé alveg ljóst, eftir þennan veðurofsa og þær afleiðingar sem við erum að sjá í kjölfarið, að það þarf eitthvað að gerast,“ sagði Unnur Valborg í Silfrinu í dag. 

Langvarandi rafmagnsleysi þýði að hús séu orðin köld, og dæmi séu um að hiti hafi farið niður í átta gráður. Fólk hafi þá engan kost annan en að koma sér fyrir í einu herbergi og kynda með kertum. Þá geti skapast eldhætta og önnur hætta sem því fylgi.

Heilbrigðisstofnanir, svo sem Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga, hafi þá orðið straumlausar og ekkert varaafl til staðar. Margir hafi upplifað algjört samskiptaleysi við umheiminn; símar virkuðu ekki, fólk komst ekki á netið, útvarp virkaði ekki. Tjónið getur þá þýtt gríðarlegt tekjutap fyrir bú, segir hún. 

„Það er dapurlegt að það sé verið að benda á bændur í því að við séum ekki komin lengra í þessari þróun. Að það séu bændur sem eru að standa í vegi fyrir því að línur séu lagðar, og ég segi fyrir mína parta, að á mínu svæði á Norðurlandi vestra, þar er enginn bóndi sem stendur í vegi fyrir því að raflagnir séu lagðar, og séu lagðar í jörðu, til þess að bæta búsetuskilyrði og tryggja orkuflutning.“

Unnur Vilborg skrifaði pistil á Facebook um aðstæður á Norðurlandi vestra í kjölfar fárviðrisins. Hún segir tilefnið hafa verið ýmis ummæli frá fólki sem lýstu aðstæðum sem „kósí“, „huggulegum“ eða „jólalegum“. Hún segir aðstæður vera langt því frá að vera huggulegar eða kósí. Þegar veðrinu hafi slotað hafi komið í ljós í hversu miklu tjóni veðrið olli, bæði á skepnum, eignum og fleiru. 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi