Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fatlað fólk í meiri hættu á einelti og áreitni

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands
Rúmlega tveir af hverjum níu hafa orðið fyrir einelti á vinnustað hér á landi, samkvæmt nýrri rannsókn. Um 16 prósent þátttakenda höfðu þá orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnuferli sínum og einn af hverjum tíu upplifað kynbundna áreitni. Fatlað fólk og fólk með erlent ríkisfang er frekar í hættu á að verða fyrir einelti og kynferðislegri áreitni á vinnustað.

Fatlað fólk talsvert líklegra til að hafa upplifað einelti 

Fatlað fólk, eða fólk með skerta starfsgetu, er talsvert líklegra en ófatlað fólk eða fólk með engar skerðingar til að hafa upplifað einelti, eða eða 35 prósent á móti 20 prósentum, segir í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu á vef Stjórnarráðsins.

Þessi hópur fólks var einnig líklegri til þess að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað einhvern tíma  á lífsleiðinni en aðrir þátttakendur, eða 21 prósent á móti 15 prósentum. 

Fólk með erlent ríkisfang er síður líklegra til að greina frá kynbundinni eða kynferðislegri áreitni. Rannsóknin gefur til kynna að fólk með íslenskt ríkisfang upplifi síður álag eða óöryggi í starfi og finni frekar fyrir stuðningi frá stjórnendum en fólk með erlent ríkisfang. Það sama má svo segja í tilviki fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu.

Sérfræðingar í ummönunnarstörfum í meiri hættu

25 prósent þeirra sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnuferli sínum voru konur og sjö prósent karlar. Sautján prósent þeirra sem höfðu upplifað kynbundna áreitni á vinnuferli sínum voru konur og fjögur prósent karlar. 

Sérfræðingar í umönnunarstörfum reyndust mun líklegri en fólk í öðrum störfum til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað. Þar á eftir kom starfsfólk í þjónustu- og verslunarstörfum. 

Fólk á fámennum vinnustöðum var ólíklegra til að hafa orðið fyrir áreitni en fólk á stærri vinnustöðum.

Rannsökuðu algengi og eðli eineltis og áreitni

Þetta leiðir rannsókn á algengi og eðli eineltis á áreitni á íslenskum vinnumarkaði í ljós. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi rannsóknina. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tók á móti niðurstöðum rannsóknarinnar í dag og kynnti þær fyrir ríkisstjórn.

Aðgerðarhópur, sem félagsmálaráðherra skipaði í fyrra í kjölfar #MeToo byltingarinnar, mun taka mið af niðurstöðum rannsóknarinnar í störfum sínum og meðal annars vinna að því að efla fræðslu og leiðsögn í þessum málaflokki, auka meðvitund og bæta stuðning við þolendur.