Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fátækt, ofbeldi og vesalingar samtímans

Mynd með færslu
 Mynd: CC / Udoweier - Wikimedia commons

Fátækt, ofbeldi og vesalingar samtímans

16.06.2019 - 10:37

Höfundar

Édouard Louis er ört rísandi stjarna í bókmenntaheimi Evrópu um þess mundir. Hann er 26 ára gamall, fæddur árið 1992 inn í verkamannafjölskyldu í Hallencourt í Norður-Frakklandi.

Édouard Louis skaust upp á stjörnuhimininn með fyrstu skáldsögu sinni Endalok Eddy Belleguele. Í bókinni, sem kom út þegar höfundurinn var aðeins 21 árs, lýsir hann því hvernig það var að vera samkynhneigður í harkalegu umhverfi gamals iðnaðarbæjar, þar sem atvinnu og tækifæri skorti áþreifanlega.

Veruháttur hins fátæka

Nafn bókarinnar, En finir avec Eddy Bellegueule, vísar í skírnarnafn höfundarins. Faðir hans gaf honum upphaflega nafnið Eddy því það var töffaralegt amerískt nafn, nafn sem hæfði hörkutóli, og það var það sem Eddy átti að verða - en gat aldrei orðið. Frá því að hann var smábarn var ljóst að hann var öðruvísi, kvenlegur í fari. Og það fékk hann að heyra og finna - honum var strítt og hann var barinn, hann var niðurlægður af fjölskyldu sinni jafnt sem jafnöldrum. Af hverju ertu með þessa stæla? spurði móðir hans - af hverju getur þú ekki bara verið venjulegur?

Fjölskyldan ólst upp við fátækt, sára fátækt raunar. Holur í húsinu, mygla, stundum ekki nægan pening fyrir mat, og ekki ráð á annarri menningu en sjónvarpsglápi. Lengi vel lifði sjö manna fjölskyldan á 700 evrum á mánuði - tæpum 100 þúsund krónum.

Innblásinn af kenningum franska félagsfræðings, Pierre Bourdieu, sýnir hann hvernig menningarleg og efnahagsleg stéttaskipting tengist óhjákvæmilega. Hvernig efnahagsleg fátækt og undirokun mótar veruhátt fólks, mótar menninguna. Lýsingar Édouards á fátæktinni eru lausar við óþarfa tilfinningavellu, en mikilvægið felst í þeirri mögnuðu innsýn í þá menningu, hefðir og viðhorf sem verða til í aðstæðum fátæktar. Hvernig sjálfsbjargarviðleitni fólks í ömurlegu umhverfi getur skapað mótsagnakennda sjálfsmynd - bæði stolt og sjálfsfyrirlitningu - og samskiptamynstur uppfullt af harðneskju og ofbeldi.

Lýsing á stéttbundnum menningarmun

Uppeldissamfélag Eddys einkenndist af hörku og karlmennska var æðsta gildið í öllum samskiptum. Alvöru karlmenn borða mikið og groddalega, þeir krossleggja ekki fætur, þeir verða fullir og lenda í slagsmálum, alvöru karlmenn gráta ekki eða tjá ást sína, alvöru karlmenn vinna erfiðisvinnu og leyfa konum sínum ekki að vinna, alvöru karlmenn leita ekki til læknis. Faðir Eddys starfaði í verksmiðjunni, líkt og flestir karlmenn bæjarins, en álagið endaði með alvarlegum bakmeiðslum sem gerðu hann óvinnufæran. Hann fór á örorkubætur og á þeim peningum þurfti sjö manna fjölskyldan að lifa.

Á sama tíma er menntun og menning lítils metin af fjölskyldunni og samfélaginu í heild. Enginn heldur áfram eftir að skyldunámi lýkur, enginn les bækur né fer í leikhús. Flókinn orðaforði og fágað mál er óskiljanlegt, og fyrirlitið - það er kvenlegt.

Í bókinni lýsir Edoard menningarlegri fjarlægð milli borgarastéttarinnar og hinna fátæku, skerpir andstæðurnar og andúðina þar á milli. Verkamannastéttin fyrirlítur yfirlæti og það sem þau sjá sem hástemmdan rembing borgarastéttarinnar - og borgarastéttin lítur niður á menningarsnauða fátæklingana, ef þau sjá þá yfirhöfuð.

Þessi menningarmunur og færsla hinna hefðbundnu verkamannaflokka í átt að borgaralegri framsetningu á undanförnum áratugum skýrir að vissu leyti af hverju hinir lægst settu hafa verið að hverfa frá vinstrinu. Fjölskylda Eddys fagnar orðræðu Marine Le Pen og Front National, öfgahægriflokksins sem elur á útlendingaandúð og kynþáttahyggju. Þetta er eina stjórnmálaaflið sem lætur sig þetta fólk varða, að mati Édouards Louis, talar um lífsaðstæður verkafólksins í Hallencourt og öðrum svipuðum gleymdum iðnaðarbæjum Frakklands.

Nýtt nafn og óánægja fjölskyldunnar

Undir lok bókarinnar, Endalok Eddy Belleguele, kemst Eddy í menntaskóla í nærliggjandi borg og „sleppur.“ Það er kannski ekki síst vegna þess að hann var öðruvísi, vegna þess að hann passaði ekki inn og var aldrei samþykktur af samfélaginu sem hann slapp frá - til að lifa af neyddist hann einfaldlega til að finna undankomuleið - og það var í gegnum menntun.

Það sem gerðist eftir að skáldsögunni lýkur er að Eddy komst þaðan áfram inn í helgustu vé franskrar menntaelítu í háskóla í École Normale Supérieure. Hann skipti um nafn til að losa sig við fortíðina, til að vera meira eins og samnemendurnir sem flestir voru aldir upp við efnahagslegt öryggi og menningarauð. Eddy Belleguele er groddalegt, nafn verkamanns, nafn hörkutóls, en Édouard Louis fágaðra, borgaralegra, nafn menntamanns.

Rithöfundurinn ungi fékk mikið lof fyrir bókina, en var bæði gagnrýndur fyrir að sýna verkafólk á groddalegan hátt, gera lítið úr þeim, og að gefa ofbeldsmönnum sínum frípassa með því að skýra hegðun þeirra út frá samfélagslegum þáttum, fyrir strúktúralíska nálgun.

Eftir að bókin kom út kvörtuðu ýmsir í fjölskyldu hans yfir því hvernig þau birtust, bróðir hans kom til Parísar að leita að Édouard með hafnaboltakylfu og móðir hans kom fram í fjölmiðlum og var mikið niðri fyrir. Hún vildi þó ekki sverja af sér að hommhatur og rasismi hafi viðgengist í fjölskyldunni, að ofbeldi og niðurlægingar hafi verið daglegt brauð, nei hún þvertók fyrir það eitt að fjölskyldan hafi verið fátæk. Sjálfsmynd hennar var að hún væri ekki fátæk, stolt fram í rauðan dauðann.

Gefur hinum undirokuðu rödd

Bækur sínar skrifar Édouard Lois þó augljóslega ekki til að ná sér niður á fjölskyldunni eða fólkinu í heimabænum. Þvert á móti er tilgangurinn að veita þeim rödd, að sýna aðstæður og líf fólks sem er algjörlega ósýnilegt í frönsku fjölmiðla- og menningarlífi, er ekki til. Sýna það eins og það er. Og fyrir það hafa margir þakkað honum.

Í meginstraumsstjórnmálum og menningu er verkamannastéttin og hinir fátæku nefnilega ýmist fyrirlitin fyrir menningarleysi sitt, útlit, hegðun, karlrembu og rasisma, eða eru rómantíseruð á þann hátt að líf þeirra virðist einfaldara, raunverulegra, jafnvel innihaldsríkara.

Það er kannski að hluta til vegna þess að Édouard Louis forðast þessar tvær klisjur sem fólki verður um og ó að lesa bækur hans. Samfélagið sem hann lýsir er ekki fyrirmyndasamfélag ímyndaðra verkamanna, hann lýsir samfélagi uppfullu af ofbeldi - ofbeldi sem hann varð sjálfur fyrir. En hann bendir ekki á fólkið sem beitti hann ofbeldinu, hann skoðar hvernig hegðun fólks á sér kerfislægar ástæður.

Í bókinni lýsir hann því hvernig það kerfislæga ofbeldi sem hinir efnahagslega undirokuðu verða fyrir tengist eitraðri karlmennsku og rasisma. Þetta er næm, blæbrigðarík og margbrotin lýsing á stéttaskiptingu og því fjölþætta ofbeldi sem fyrirfinnst í samfélaginu, ofbeldi sem getur af sér ofbeldi.

Pólitík snýst um líkamann

Frá því að Endalok Eddy Belleguele gerði Édouard Louis að stjörnu og áberandi rödd í frönsku þjóðlífi hafa komið út tvær bækur, Saga ofbeldis, sem fjalla meðal annars um nauðgun sem hann varð fyrir af hendi manns af alsírskum uppruna. Og svo nýjasta bókin, Hver myrti föður minn?, sem fjallar um líf föður hans.

Faðir hans, hommahatandi hörkutólið, sem fyrirleit menntamenn og borgarastéttina, hafði hringt í son sinn eftir útgáfu annarrar bókarinnar, sagst vera stoltur af honum - í fyrsta skipti ófullur.

Faðir hans var búinn að missa bæturnar sínar, hafði verið metinn vinnufær þrátt fyrir alvarleg bakveikindi og stöðuga verki. Hann hafði því verið neyddur aftur á vinnumarkaðinn þrátt fyrir að vera örkumla, og starfaði nú sem götusópari.

Í þessari nýjustu bók rekur hann hvernig pólitískar ákvarðanir í forsetatíð Nicolas Sarkozy, Francois Hollands, og Emmanuels Macrons hafa haft áhrif á líf föður hans, og raunar líkama. Hvernig pólitískar ákvarðanir hafa örkumlað líkama föður hans, skert lífsmöguleika hans, drepið föður hans.

Hann snýr raunar við þekktu slagorði femínistahreyfingarinnar: hið persónulega er pólitískt, og bendir á að hið pólitíska sé alltaf persónulegt. Ákvarðanir sem eru teknar af stjórnmálamönnum hafa áhrif á persónulegt líf föður hans, eru í raun jafn innilegar og fyrsti kossinn.

Hann hefur orðað það þannig að pólitík snúist um líkamann. Þeir sem eru undirokaðir í samfélagsstrúktúrnum finna fyrir pólitíkinni á eigin skinni. Þeir sem eru hinsegin eru líklegri til að valda sjálfum sér skaða eða svipta sig lífi, þeir sem eru dökkir á hörund eru líklegri til að deyja fyrir aldur fram vegna lögregluofbeldis, hinir fátæku neyðast til að vinna og haga sér á hátt sem gerir líkama þeirra útslitna fyrir aldur fram. Misskiptingin og undirokunin hefur bein áhrif á líkama þeirra og drepur þetta fólk. Það er hrein aftenging við raunverulegt líf hinna verst settu sem gerir stjórnmálamönnum kleift að samþykkja þetta.

Samtvinnun undirokunar og ofbeldis

Í þeirri miklu bylgju mótmæla sem hefur riðið yfir Frakkland frá því í nóvember og kennd er við gulvestunga hefur Édouard Louis verið hampað sem málsvara hreyfingarinnar, hreyfingar sem mótmælir efnahagslegu misrétti nýfrjálshyggjustjórnmálannna sem forsetinn Emmanuel Macron stendur fyrir. Lýsingar hans eru notaðar til að útskýra þessa miklu reiði hinna efnahagslega undirokuðu, reiði sem vel stæðir Parísarbúar skilja engan veginn.

Rasismi og hómófóbía sem hefur birst innan gulvestunga-hreyfingarinnar hefur verið notað til að gera lítið úr mótmælum hennar. Louis hjálpar okkur hins vegar að skilja hvernig fordómarnir eru samtvinnaðir þeirri undirokun sem hinir fátæku, gamla verkamannastéttin, upplifa. Að uppræta annað án hins er erfitt.

Þetta er ástæðan fyrir því að Édouard Louis tekst á mun betri hátt en flestir stjórnmálagreinendur að varpa ljósi á uppgang popúlisma í samtímanum. Hann beinir sjónum sínum að fólki sem er ósýnilegt en krefst þess að vera séð. Hann varpar ljósi á hvernig efnhagsleg undirokun leiðir til vonleysis og vanmáttar sem aftur leiðir til þess að fólk kýs gegn ríkjandi ástandi, sama hver talar fyrir því og hvernig, hvort sem sá sé, og kannski umfram allt ef hann er ekki, hinum borgaralegu öflum þóknanlegur.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Macron kynnir umbótatillögur

Stjórnmál

Hafa mótmælt í nærri hálft ár

Erlent

Virðingarleysið sameinar gulvestunga