Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Farþegi frá Verona: „Engin taugaveiklun í gangi“

Mynd: RÚV/samsett mynd / RÚV/samsett mynd
„Þetta fór nú bara nokkuð þokkalega fram,“ segir Valdimar Örn Flygenring, einn þeirra sem voru um borð í flugvél Icelandair sem lenti í Keflavík á sjötta tímanum, eftir flug frá Veróna á Ítalíu. Um borð voru um 70 manns sem hafa verið á skíðum á Norður-Ítalíu, þar sem talin er mikil hætta á COVID-19 smiti. Lunginn af þeim Íslendingum sem hafa smitast var á þessum slóðum og mikill viðbúnaður var því við komu vélarinnar.

„Við fengum afhentar grímur og samloku, vatn og súkkulaðikex þegar við komum um borð,“ segir Valdimar Örn. „Og stelpurnar voru í einhverjum svona göllum, með grímur og gleraugu.“ 

Það er að segja flugfreyjurnar?

„Já. Og svo voru þær ekkert að skipta sér af okkur, við sátum bara þarna í rólegheitunum.“

Geturðu lýst andrúmsloftinu um borð?

„Það var bara mjög afslappað og gleðilegt. Það var engin taugaveiklun í gangi. Alls ekki.“

Þannig að þér fannst fólk ekki vera áhyggjufullt?

„Nei. Við erum búin að vera á þessu svæði í viku og það er fullt af fólki í kringum okkur á þessu svæði sem maður finnur í raun og veru að er veikt. Það eru miklu fleiri veikir þarna, og út um alla Evrópu, fólk sem fer ekki í neinar greiningar. Það finnur einhver lítil einkenni, er heima hjá sér og verður hressara.“

Fjögurra metra fjarlægð

En er gott að vera kominn heim?

„Já að sjálfsögðu er fínt að vera kominn heim. Það er bara vesen með hundinn, köttinn og konuna, að vera ekki búinn að sjá hana í tvo mánuði og þurfa að vera í fjögurra metra fjarlægð.“

Já þú ert á leið í sóttkví?

„Já þó ég sé alveg einkennalaus er ég á leið í sóttkví, „no matter what“. Ég spurði hvort ég gæti fengið greiningu á sýni til þess að tékka á mér en þau sögðu bara að það væri ekki hægt ef ég væri ekki með nein einkenni.“

En óttastu að vera smitaður af COVID-19?

„Í raun og veru ekki. Ég er bara slakur gagnvart þessu. Þetta er komið og verður áfram. Og við vitum að þessar aðgerðir núna eru til þess að hindra dreifinguna svo að heilbrigðiskerfið ráði betur við þetta. Það er ekki eins og það hafi ekki komið flensa hérna áður. Fólk deyr úr flensum,“ segir Valdimar Örn.