
Alls voru 166 farþegar í flugvélinni. Nota þurfti stigabíla til að koma fólki frá borði og tók það nokkurn tíma. Viðbragðs- og áfallateymi voru kölluð út og hafa þau liðsinnt fólki. „Það hefur gengið mjög vel. Það er ótrúlegt hvað farþegar voru yfirvegaðir þegar þeir komu til okkar,“ segir Jón Guðmundsson, aðgerðastjóri Rauða krossins. Hann hrósaði áhöfninni fyrir að halda ró sinni og fyrir að tryggja að farþegar væru rólegir.
Áfallateymið hefur rætt við fólk og nýttu sumir sér það. Margir farþegar voru á leið í tengiflug og héldu för sinni áfram.
„Það er talsverður viðbúnaður við vélina,“ sagði Þórhildur Þorkelsdóttir fréttamaður í kvöldfréttum í útvarpi. Hún er á vettvangi. „Rannsóknarnefnd samgönguslysa er að skoða vettvang og lögreglan líka þannig að þetta er talsverður viðbúnaður. Sem betur fer eru allir ómeiddir og fólk er komið úr flugvélinni.“
Miklir eldneistar
Farþegi sem fréttastofa ræddi við fyrr í dag sagði að farþegar hefðu orðið furðu lítið varir við hvað fór úrskeiðis miðað við hvað gerðist og taldi þá merkilega rólega. Annar sat við glugga rétt hjá flugvélinni og horfði á eldneistana frá hreyflinum. Sá óttaðist um skeið að það kynna að kvikna í út frá því.
Hvassviðri hefur verið á Keflavíkurflugvelli og í nágrenni í dag. Landgangar flugstöðvarinnar voru teknir úr notkun upp úr klukkan þrjú vegna vinds. Þurfti þá að koma fólki til og frá borði með stigabílum. Það olli nokkrum töfum. Landgangarnir voru teknir í gagnið aftur á sjötta tímanum.