Farsóttir fyrri tíma, spænska veikin og COVID-19

30.03.2020 - 15:00
Mynd: Ríkisbóksafn Queensland / Flickr
COVID-19 er sennilega alvarlegasta farsótt sem hefur herjað á mannkynið í rúmlega öld eða frá því að spænska veikin svokallaða varð tugum milljóna að aldurtila 1918-19. Veikin var þó ekki upprunninn á Spáni, hún átti að öllum líkindum uppruna sinn í Bandaríkjunum.

Engin ritskoðun á Spáni

Inflúensufaraldurinn sem kom upp 1918 var kölluð spænska veikin vegna þess að þar var fjallað opinskátt um hana í fjölmiðlum, öfugt við þau ríki sem bárust á banaspjót í fyrri heimsstyrjöldinni. Fjölmiðlar styrjaldarríkjanna sættu strangri ritskoðun og ekkert var birt sem gæti gefið óvininum upplýsingar um ástand mála. 

Mannskæðasta farsótt sögunnar

Á tímabilinu frá september til nóvember 1918 létust milljónir manna úr spænsku veikinni sem var einhver mannskæðasta farsótt sögunnar. Talið er að 500 milljónir hafi sýkst og sennilega meira en 50 milljónir látist. Ef þessar tölur eru réttar hafa 10 prósent þeirra sem smituðust dáið. Á Íslandi létust tæplega 500 manns, veikin var sérlega skæð í Reykjavík þar sem nærri 300 dóu.

Draugabær og fjöldagrafir

Brynjólfur Þór Guðmundsson, fréttamaður, gerði tvo útvarpsþætti um spænsku veikina 2018 þegar 100 ár voru frá því hún fór sem lok yfir akra. Flest hinna látnu í Reykjavík voru grafin í Hólavallagarði og Brynjólfur ræddi meðal annars við Heimi Janusarson umsjónarmann garðsins.  

Mynd: . / .
Engill dauðans: Spænska veikin á Íslandi, fyrri hluti.

Tíu þúsund veikir í 15 þúsund manna bæ

Það voru tíu þúsund manns veikir í nóvember. Á þessum tíma bjuggu um 15 þúsund í Reykjavík. Heimir Janusarson segir að lík hafi bunkast upp og þegar menn hafi farið að hressast hafi verið farið að grafa og reyna að koma skikk á hlutina. Lík hafi verið flutt í líkhúsið. Lögreglustjóri auglýst í blöðunum eftir aðstandendum, að öðrum kostum sjái hið opinbera um málið.

„Það er það sem gerist hér 20. nóvember, að það eru átján manns grafnir í einni athöfn, og þau eru öll með nafni nema tvær konur sem finnast látnar í húsi. Þær hafa greinilega verið gestkomandi þar og enginn lifandi til frásagnar um hverjar þessar konur voru.“

„Hönd dauðans leggst yfir höfuðborgina“

Núlifandi Íslendingum þykir efalítið nóg um lokanir og þrengingar vegna COVID-19, en það er ekkert í líkingu við það sem var fyrir rúmri öld. Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur, sagði í fyrri útvarpsþættinum:

„Hönd dauðans leggst yfir höfuðbæinn, það er eiginlega ekkert í gangi, verslanir loka, skólahaldi er aflýst. Það eru engar bíósýningar, engar skemmtanir, eftir miðjan nóvember er í einu orði sagt hrikalegt ástand í Reykjavík.“

 

Mynd:  / 
Engill dauðans: spænska veikin á Íslandi, seinni hluti.

Stökkbreytt veira

Magnús Gottfreðsson, prófessor í læknisfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í smitsjúkdómum, segir að það sem hafi gert spænsku veikina svona illskeytta hafi fyrst og fremst verið að veiran, sem kom fram við lok fyrri heimsstyrjaldar, hafi nýlega stokkið á milli tegunda. Erfðamengi hennar hafi verið rannsakað um síðustu aldamót.

Veiran endursköpuð

Veiran hafi verið endursköpuð, segir Magnús, með því að skoða og rannsaka lífsýni úr látnum hermönnum og frá frumbyggjum Alaska sem voru grafnir í sífrera þar.

„Á þessum tíma vissu, 1918, vita menn ekki hvað inflúensuveira er. Veiran er ekki þekkt, hún var ekki uppgötvuð fyrr en löngu, löngu síðar þannig að það var ekki hægt að safna sýnum fyrr en löngu síðar og það var þá gert með þessum nýtísku aðferðum sem að byggðu á raðgreiningu og mögnun á erfðaefni úr þessum gömlu lífsýnum.“ 

Mannkyn varnarlaust gegn nýjum meinvaldi

Magnús segir að komið hafi í ljós að veiran hafi verið fuglaflensuafbrigði. Það þýði að þarna hafi orðið til algerlega nýr meinvaldur sem væntanlega hafi stokkið frá fuglum, hugsanlega í gegnum einhvern millihýsil, og yfir í menn. Það sem gerist þegar nýr meinvaldur ryðjist inn í nýja tegund sé að tegundin, við, séum algerlega máttvana, varnarlaus gagnvart þessum nýja meinvaldi. Það sé vegna þess að við höfum ekkert ónæmissvar, engin mótefni og þess vegna verði þessi bylgja yfirleitt mjög þung. Við þessar aðstæðir að láti miklu fleiri lífið en þegar fólk hafi myndað mótefni og sýkillinn hugsanlega eitthvað misst vígtennurnar sínar. 

Magnús Gottfreðsson smitsjúkdómalæknir
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV
Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum.

Sannkallaður hryllingur

Spænska veikin var sannkallaður hryllingur og hefur líklega dregið fleiri til dauða en nokkur önnur einstök farsótt, en fyrri plágur voru þó sumar hlutfallslega enn mannskæðari. Líklega hefur allt að þriðjungur Íslendinga dáið í stórubólu 1707-1708 og svartidauði 1402-1404 hefur ef til vill orðið helmingi landsmanna að aldurtila. Svartidauði var ekki veirusjúkdómur heldur var það baktería sem olli honum. Ótaldar eru milljónir í vesturheimi sem féllu í farsóttum sem fylgdu evrópskum landnemum og frumbyggjar Ameríku voru berskjaldaðir gegn, því sjúkdómarnir höfðu ekki gengið þar og fólk hafði því ekki myndað ónæmi.

Misjafnt á hverja farsóttirnar herja harðast

Það virðist misjafnt hvaða aldurshópar eru viðkvæmastir í farsóttum. Þannig virðist sem langflestir þeirra sem létust í stórubólu hafi verið ungt fólk enda tók það Ísland langan tíma að jafna sig eftir hana. Gísli Gunnarsson, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands, ræddi þetta í útvarpsþáttunum Fjöregg þjóðar, sem fjölluðu um utanríkisverslun Íslendinga. 

Stórabóla herjaði á ungt fólk

Stórabóla gekk hér yfir 1707-1708. Það er talið að 25% Íslendinga hafi dáið í stórubólu og þeir sem dóu voru á aldrinum frá tveggja til þriggja ára upp í 35 ára, samkvæmt aldursgreiningu segir Gísli. Þetta var það fólk sem var líklegast til að eignast börn.

,,Það er athyglisvert að það tekur 45 ár fyrir Íslendinga að jafna sig eftir bólusóttina í fólksfjölda talið en hins vegar ekki nema 15 ár að jafna sig eftir móðuharðindin sem þó drápu 20 prósent Íslendinga hérumbil eins mörg og bólustóttin.“

Eldra fólk bjó að ónæmi 

Gísli segir að 35 árum fyrir stórubólu hafi gengið bólusótt sem hafi bólusett Íslendinga. Magnús Gottfreðsson tekur undir að það hafi verið ástæða þess að þessi faraldur lagðist nær eingöngu á ungt fólk. Þeir sem eldri voru hafi búið að því ónæmi sem þeir byggðu upp þegar faraldurinn á undan gekk yfir. Bólusótt var hryllilegur mannskæður sjúkdómur sem herjaði á mannkyn í árþúsundir. Henni hefur nú verið útrýmt og staðfesti Alþjóðheilbrigðisstofnunin það árið 1980.

Börn og eldra fólk verður oft illa úti

Magnús Gottfreðsson segir að býsna algent sé þegar faraldur gangi að aldurskúrfa látinna líti út eins og bókstafurinn U. Dánartíðni sé hæst hjá allra yngstu börnunum, lækki síðan en hækki á ný hjá fólki sem sé komið yfir miðjan aldur. Það virðist ekki vera þannig núna, COVID-19 leggist þyngst á eldra fólk.

,,Við vitum að með hækkandi aldri á fólk í vaxandi mæli við ýmis konar önnur vandamál að stríða, eins og háþrýsting, kransæðasjúkdóm, lungnavandamál og ýmislegt sem kjallar á lyfjagjöf. Þetta eru allt saman þættir sem við þurfum að taka tillit til og hafa vafalítið áhrif á hvernig okkur gengur að hreinsa okkur af þessari veiru.“

COVID-19 ekki fyrsti alheimsfaraldur 21. aldar

Frá nóvember 2003 fram í júlí 2004 gekk farsótt skilgreind sem alheimsfaraldur. Faraldurinn gekk undir nafninu HABL, heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu. Flestar aðrar þjóðir notuðust við ensku skammstöfunina SARS, sem stendur fyrir severe acute respiratory syndrome. Sú veira kom upp í Kína líkt og kórónuveiran nú. 

Eðlismunur á veirum

Það tókst að stöðva útbreiðslu HABL en af hverju tókst það þá en ekki nú? Magnús Gottfreðsson segir eðlismun á kórónuveirunni nú og þeim er ollu HABL og fuglaflensu, kórónuveiran sem valdi COVID-19 geti smitað á meðan fókl er einkennalítið eða einkennalaust. Það geri það að verkum að miklu erfiðara sé að grípa í taumana, stöðva för fólks og beita hefðbundnum aðgerðum til þess að hindra smit.

,,Þetta er grundvallarmunur á SARS-veirunni og þessari SARS-2 veiru sem við erum að berjast við núna og veldur þessum sjúkdómi sem kalaður er COVID."

 

Magnús Gottfreðsson segir að til séu ýmsar tegundir fuglaflensu sem hafi stokkið frá fuglum yfir í menn, en þær hafi ekki náð að aðlagast sínum hýsli eins og kórónuveiran hafi gert í þessu tilfelli. Það geri það að verkum að jafnvel þó að veiran geti smitast frá fugli í mann þá verði menn sjaldan smitberar og beri smit í annað fólk í kringum sig.

,,Það er þá ástæðan fyrir því að slíkar sýkingar stövast yfirleitt innan mjög þröngs hóps.“

Þróun bóluefnis var langt komin

Vísindamenn um allan heim vinna nú baki brotnu að því þróa bóluefni við COVID-19. Þróun bóluefnis gegn HABL var langt komin á sínum tíma en af hverju var því starfi hætt? Magnús Gottfreðsson segir að það hafi gengið kraftaverki næst að það tókst að stöðva HABL. Miklar rannsóknir hafi farið af stað, prófanir bæði á lyfjum og bóluefnum sem hafi nýst sem ákveðinn grunnur fyrir þá vinnu sem nú er hafin. 

Ekki bjartsýnn á að bóluefni finnist á næstunni

Það er ekkert áhlaupaverk að þróa bóluefni við SARS-CoV-2 kórónuveirunni. Er eitthvað hægt að segja til um hvenær það tekst? Magnús segir að mörg hraðamet í þróun bóluefnis hafi þegar verið slegin. Vinna við bóluefni við HABL og svínaflensu fyrr á þessari öld nýtist núna þegar vísindamenn berjast gegn kórónuveirunni sem veldur COVID-19. Magnús segir að til þess að svara spurningum sem snúi að öryggi bóluefnis þurfi að prófa það á fjölmennum hópum og eftirfylgd sé löng. 

,,Þess vegna er ég ekki mjög bjartsýnn á að við verðum komin með töfralausn eða mjög vel prófað bóluefni innan skamms. Ég vona að mér skjátlist.“

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi