Farsóttin enn í uppsveiflu

Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson / RÚV
Farsóttin færist enn í aukana hérlendis. 648 tilfelli hafa verið staðfest og smit hefur nú greinst í öllum landshlutum. 61 greindist með veiruna í gær. Fara þarf að leiðbeiningum og ekki gera ráð fyrir að allt virki eins og venjulega, segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Von er á 1000 sýnatökupinnum í dag.

Rúmlega sjötug kona lést í gær á Landspítalanum af völdum COVID-19. Hún hafði glímt við önnur langvarandi veikindi að því fram kom í tilkynningu Landspítalans. Þetta er annað andlátið af völdum COVID-19 sjúkdómsins. Fyrir viku lést ástralskur ferðamaður um fertugt á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík. 

Meirihluti smitaðra var þegar í sóttkví

Hlutfall kórónuveirusmita af fjölda sýna, sem tekin voru í gær, var sextán prósent, svipað eins og verið hefur undanfarið. 

„Það er líka ánægjulegt að segja það að af þessum nýgreindu einstaklingum þá voru 60% þeirra í sóttkví. Sem að styður enn fremur þessar aðgerðir sem við höfum verið að gera að halda fólki í sóttkví og forða því þegar þeir veikjast eða ef þeir veikjast að þeir smiti aðra,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Nú hafa samtals 648 kórónuveirusmit verið staðfest hér samkvæmt covid.is. Ellefu liggja á sjúkrahúsi, þar af tveir á gjörgæsludeild. Rúmlega 8.200 manns eru í sóttkví. Smit hafa nú verið greind í öllum landshlutum því fyrsta smitið hefur verið greint á Austurlandi. 

„Ef við metum faraldurinn, hvar stöndum við, þá erum við enn þá í þessari uppsveiflu og eins og við höfum talað um þá eru svona sveiflur milli daga þannig að maður svona fer varlega í að túlka tölur milli daga.“

Nýtt spálíkan verður birt síðdegis á morgun. 

Heilsugæslan þakkar fyrir þolinmæðina

Smit kom upp á Heilsugæslunni í Firði í Hafnarfirði í gær, og hluti starfsmanna þar vinnur nú að heiman. Heilsugæslan í Mosfellsbæ opnar á föstudaginn eftir að smit kom þar upp fyrir hálfum mánuði hjá einum starfsmanni. Enginn annar smitaðist þar. Geysilegt álag er á heilsugæslustarfsfólki, til dæmis á höfuðborgarsvæðinu, segir Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins: 
 
„Þrátt fyrir að kerfin okkar eigi erfitt með að ráða við þetta álag sem hefur orðið, símaálagið, rafrænu samskiptin, að þá hefur fólk haft biðlund og erum við þakklát fyrir það.“

1000 sýnatökupinnar koma í dag

Góð tíðindi eru af sýnatökupinnum, því von er á 1000 pinnum að utan í dag og fleiri væntanlegir síðar í vikunni. Landspítalinn er búinn að panta pinna frá Kína og eins Íslensk erfðagreining. Karl Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans, sagði í fréttum í gær að til stæði að prófa hvort pinnar frá Össuri geti hentað. Það var gert í dag en niðurstöður eru ekki komnar. Það skýrist síðar í vikunni hvort þeir eru brúklegir. Tæplega 2000 pinnar eru til núna. 

Ekkert virkar venjulega í samkomubanni

En það að framfylgja 20 manna hámarki í samkomubanni getur verið snúið og margir vilja fá undanþágu frá því. 

„Ef þið horfið á löndin í kringum okkur þar sem er farið niður í tvo saman, sem er miklu lengra heldur en við erum að ganga. Nú verðum við bara að taka þessu alvarlega og fara eftir þessum leiðbeiningum sem við erum að gefa út. Þetta er ekki flókið. Þetta er erfitt. Þetta er mjög snúið fyrir mörg fyrirtæki. Mjög mörg fyrirtæki munu ekki geta starfað. Það er ekkert í samfélaginu að virka eins og það gerir venjulega. Menn geta ekki sett sig þannig niður að það muni eitthvað virka venjulega. Þannig að það er bara það sem munu þurfa að huga að núna,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi