Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Farfuglar koma fyrr vegna hlýnunar jarðar

03.03.2019 - 11:37
Mynd með færslu
 Mynd: Alex Máni Guðríðarson - Aðsend mynd
Tómas Grétar Gunnarsson, vistfræðingur og forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, segir að algengir farfuglar komi fyrr til landsins og að það megi rekja til hlýnunar. Erlendis hafi það sums staðar orðið til þess að ungarnir klekjast út þegar lítið er um æti.

 

Um 70 prósent fugla hér á landi eru farfuglar sem koma milljónum saman til landsins á vorin. Tómas segir að komutími þeirra sé nátengdur hitafari. 

„Við sjáum það núna á síðustu áratugum að komutími farfugla hefur verið að færast fram. Þetta munar dálítið miklu í sumum tilfellum. Margar algengar tegundir, eins og til dæmis lóur og gæsir og fleiri, eru að flýta komutíma sínum að meðaltali um hálfan dag á ári og hafa verið að gera það síðustu 20 árin.“

Algengir fuglar sem komu til landsins um miðjan apríl fyrir 20 árum komi nú í byrjun apríl. Komutími fuglanna getur skipt mjög miklu máli fyrir varp og veru þeirra hér á landi. „Því að varptíminn, hann þarf að hitta á ýmislegt annað sem gerist í náttúrunni eins og til dæmis framboð af fæðu og áhrif þessara breytinga geta þess vegna verið talsvert mikil,“ segir Tómas. 

Erlendis hafa rannsóknir sýnt að breytingar á komutíma spörfugla sem éta smádýr hafa orðið til þess að ungarnir svelta því þeir klekjast út þegar ekki er nægjanlegt framboð af smádýrum. „Breytingarnar eru almennt meiri hjá þessum fuglum sem fara styttra,“ segir Tómas. 

Því sjást meiri breytingar hjá fuglum eins og heiðlóu, hrossagauk, jaðrakan og öðrum algengum mófuglum sem dvelja á Bretlandseyjum og í Frakklandi yfir veturinn. Minni breytingar eru á komutíma fugla eins og kríu og spóa sem fara alla leið til Afríku Tómas segir að þessar breytingar geti haft margar og ólíkar afleiðingar. „En við getum svona almennt gert ráð fyrir því að fuglar sem þrífast vel í hlýrra loftslagi þeir dafni vel en þeir sem eru hérna á suðurmörkum útbreiðslunnar þeir hörfi.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV