Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Faraldurinn gæti náð hápunkti í kringum 10. apríl

18.03.2020 - 21:17
Mynd: Skjáskot / RÚV
COVID-19 faraldurinn gæti mögulega náð hámarki hér á landi í kringum 10. apríl, sagði Alma Möller landlæknir í umræðuþætti RÚV um COVID-19 í kvöld. Hún tók þó fram að þetta væri sagt með miklum fyrirvörum. Sérfræðingar hafa verið fengnir til að taka mið af því hvernig veiran hefur hegðað sér hér á landi og líta til reynslu annarra ríkja, einkum Kína og Ítalíu. Þeir drógu upp mynd af því hvernig þróunin kynni að verða hér á landi.

Alma sagði að þau sem standa í baráttunni við COVID-19 hefðu fengið niðurstöður sérfræðinganna í dag. „Þá eru bestu spár sem segja að við verðum á hápunkti faraldursins kannski 10. apríl, plús mínus kannski fimm dagar eða nokkrir dagar, um  miðjan apríl getum við sagt.“ Þannig svaraði Alma spurningu um hvernig spár heilbrigðisyfirvalda líta út. „Þá eru spárnar að líklegast verði 40 á sjúkrahúsi á hverjum tíma en allt upp í 110 manns.“

Alma sagði að kúfurinn á gjörgæslu kæmi aðeins síðar, hugsanlega 14. apríl. það byggir á því að alvarlegri einkenni veikinnar koma fram síðar en þau vægari. Miðað við spárnar verða frá sjö upp í 40 einstaklingar á gjörgæslu á hverjum tíma. Aðspurð um öndunarvélar endurtók Alma að til eru 26 vélar á Landspítala og fjórar á Akureyri. Að auk er fjöldi annarra öndunarvéla í sjúkrabílum og á skurðstofum.

„Við segjum þetta með miklum fyrirvara,“ sagði Alma um spárnar.