Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fara yfir gögn frá Stakksbergi

20.05.2019 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar frestaði afgreiðslu á tillögu Stakksbergs um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík í byrjun mánaðarins. Fram hefur komið í máli fulltrúa meirihlutans að hægt sé að skoða möguleika á íbúakosningu þegar Stakksberg óski eftir breytingum á deiliskipulagi. Stakksberg ætlar að láta lagfæra kísilverksmiðjuna í Helguvík sem áður var kennd við United Silicon og þarf því að óska eftir breytingum á deiliskipulagi.

„Málið er í vinnslu. Það er verið að skoða nýkomin gögn frá Stakksbergi í umhverfis- og skipulagsráði og ekki er enn ljóst hvenær þau verða tekin til afgreiðslu,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs, aðspurður um stöðu málsins.

Stakksberg hefur lagt til tvær breytingar á deiliskipulagi fyrir lóðina Stakksbraut 9 þar sem kísilverksmiðjan stendur. Annars vegar vinnur Stakksberg að tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við skipulags- og matslýsingu, sem auglýst var frá 28. febrúar til 21. mars, í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Samkvæmt upplýsingum frá Stakksbergi er kynning á þeirri tillögu á vinnslustigi og er gert ráð fyrir að tillaga að frekari breytingum á deiliskipulaginu verði auglýst á sama tíma og Skipulagsstofnun vinnur álit sitt um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Hins vegar hefur Stakksberg óskað eftir því við Reykjanesbæ að bærinn auglýsi sem fyrst til kynningar og athugasemda, tillögu með lagfæringum til að aðlaga deiliskipulagið byggingarleyfum sem þegar hafa verið samþykkt og að byggingum sem þegar er búið að reisa í samræmi við tilmæli Skipulagsstofnunar frá 12. maí 2017 sem beint var til Reykjanesbæjar. Að sögn Þórðar Ólafs Þórðarsonar, stjórnarformanns Stakksbergs, vill fyrirtækið með þeirri tillögu bregðast við tilmælum Reykjanesbæjar um að það hvernig unnið verði úr mistökum þegar sveitarfélagið gaf út byggingarleyfi sem stönguðust á við ákvæði í þágildandi skipulagi. Samkvæmt skipulagi á svæðinu er hámarkshæð bygginga á efri stalli lóðarinnar 25 metrar en tvær byggingar eru hærri, önnur er rúmir 30 metrar og önnur rúmir 38 metrar. Á sínum tíma óskaði Reykjanesbæ eftir breytti matsskýrslu frá United Silicon vegna mistakanna til að geta gert nýtt deiliskipulag. Umhverfis- og skipulagsráð frestaði afgreiðslu á þessari breytingu á dögunum. 

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa lýst því yfir að þau séu hlynnt því að íbúar fái að segja sína skoðun á framtíð stóriðju í Helguvík sem er í rúmlega eins kílómetra fjarlægð frá íbúabyggð í bæjarfélaginu. Þar er nú þegar bygging sem átti að hýsa álver og fyrirtækið Thorsil áformar að byggja þar aðra kísilverksmiðju. Mikla mengun lagði frá verksmiðju United Silicon þá mánuði sem hún var starfrækt og því eru íbúar margir hverjir á móti því að starfsemi verði hafin þar að nýju. 

Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi Beinnar leiðar, sem myndar meirihluta með Framsóknarflokki og Samfylkingu, sagði á bæjarstjórnarfundi í síðasta mánuði að bæjaryfirvöld gætu ekkert gert, nema hugsanlega ef Stakksberg myndi óska eftir deiliskipulagsbreytingum. 

Samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík söfnuðu um 2.700 undirskriftum í kringum áramót og afhentu bæjaryfirvöldum. Þau vilja að íbúar fái að kjósa um framtíð stóriðju í Helguvík. Lögmaður bæjarfélagsins komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið farið eftir reglum um slíka söfnun undirskrifta og því gæti bæjarfélagið ekki boðað til íbúakosningar á grundvelli hennar. 

21. maí 2019, klukkan 12:46, var fréttin uppfærð og bætt inn í textann að tillögurnar eru tvær. Önnur er í vinnslu en Umhverfis- og skipulagsráð hefur frestað afgreiðslu á hinni.