Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fara fram á að innheimta smálána verði stöðvuð

20.07.2019 - 12:56
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Neytendasamtökin hafa farið fram á að innheimtu smálána verði hætt á meðan lánin eru endurútreiknuð. Formaður samtakanna segir að það sé hulin ráðgáta hvers vegna smálán fá enn að viðgangast.

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna var gestur í Vikulokanunum á Rás 1 í morgun. Hann segir að samtökin hafi barist gegn smálánunum síðan þau skutu fyrst upp kollinum fyrir rúmum áratug. Samtökin birtu áskorun til innheimtufyrirtækisins Almennrar innheimtu í fyrra dag þar sem þau hvöttu fyrirtækið til að hætta allri innheimtu á smálánaskuldum á meðan lánin yrðu reiknuð út á ný samkvæmt íslenskum lögum. Eins og er séu heildarendurgreiðslur lánanna miklu hærri en leyfilegt er samkvæmt lögum. 

Smjúga í gegnum gloppur í lögunum

Breki segir að í vinnu sinni hafi Neytendasamtökin fundið að minnsta kosti 15 gloppur í lögum sem fyrirtækin smjúga inn og út um. „Sem betur fer er vinna stjórnvalda við að stoppa þetta og okkar von og trú er að það verði stoppað í öll þessi göt því það þýðir ekkert að stoppa bara í eitt því þá birtast þau annars staðar.“ Hann segir að meðal annars sé stórkostleg gloppa í innheimtulögum sem segja að öll innheimtufyrirtæki eigi að lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins nema þau séu í eigu eins lögfræðings en þá lúti þau eftirliti Lögmannafélagsins. Þetta orki tvímælis og eftirlitið sé í besta falli í skötulíki. 

Einn stóru bankanna viðriðinn innheimtu smálána

Í umfjöllun Kveiks um smálánafyrirtækin síðasta vetur kom fram að einn sparisjóður hefur séð um innheimtu fyrir Almenna innheimtu. Breki segir að vísbendingar séu um að einn stóru bankanna sé einnig tengdur málinu. „Því miður höfum við á undanförnum dögum fundið vísbendingar um að einn stóru bankanna sé líka mjög viðriðinn þetta mál. Á næstu dögum, þegar við fáum svör frá viðkomandi banka, munum við fara á fullt í þetta því þetta er ekki hægt,“ segir Breki.

Í hverri viku koma á annan tug manna til Neytendasamtanna og mikill meirihluti þeirra er fólk sem sem tekur lánin í neyð. Þetta sé fólk sem glímir við andlega vanheilsu, fólk með fíknisjúkdóma og fátækt fólk. Breki segir jafnframt að það sé mjög auðvelt að fá lán hjá smálánafyrirtækjum og engin þörf sé á greiðslumati. 

„Það eina sem þarf að gera er að ýta á einn takka og þrjátíu sekúndum seinna ertu kominn með pening inn á reikninginn þinn,“ segir Breki. „Ég vona svo sannarlega að ráðherra standi við stóru orðin og stöðvi þetta í eitt skipti fyrir öll. Enginn heiðvirður maður mælir með þessu eftir að hafa skoðað þessi mál.“

Hægt er að hlusta á Vikulokin í heild í spilaranum hér að ofan.