Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fannst við Selvogsvita – fundurinn í heild

Mynd: Vilhjálmur Siggeirsson / RÚV
Um miðjan dag í dag tilkynnti áhöfn Landhelgisgæslunnar um líkfund í fjörunni við Selvogsvita. Talið er að um sé að ræða Birnu Brjánsdóttur. Þetta kom fram í yfirlýsingu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem lesin var í upphafi blaðamannafundar nú síðdegis. Lögregla telur að Birnu hafi verið ráðinn bani.

Á sjötta hundrað björgunarsveitamanna hafa leitað Birnu og vísbendinga um hvarf hennar í dag og í gær. Um klukkan þrjú í dag voru björgunarsveitarmenn kallaðir til bækistöðva sinna í Hafnarfirði og í Grindavík. Þá stóð til að endurskipuleggja leitina vegna nýrra vísbendinga.

Grímur Grímsson, yfirmaður rannsóknar á hvarfi Birnu, sagði í dag að lögregla geti með óyggjandi hætti sýnt fram á að Birna hafi verið í rauðri Kia Rio-bifreið, sem lögregla lagði hald á á þriðjudag. Lífsýni sem send voru til Svíþjóðar, hafi reynst vera blóð úr Birnu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ekki er hægt að segja til um dánarorsök að svo stöddu, en bráðabirgðaniðurstaða mun liggja fyrir innan nokkurra daga. Rannsókn á vettvangi er lokið. Birnu hefur verið saknað síðan á laugardagsmorgun.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV

 

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir að rannsókn málsins hafi þokast mjög áfram undanfarna daga. Í dag hafi orðið ákveðinn vendipunktur, því ekki sé lengur hægt að búast við að finna Birnu á lífi. Grímur segir lögreglu telja að rannsókn málsins sé nokkuð langt komin.

Mennirnir tveir sem eru í haldi vegna hvarfs Birnu eru í einangrun. Lögregla segir að þeir viti væntanlega ekki af líkfundinum. Þeir verða yfirheyrðir annað hvort á morgun eða á þriðjudag.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV