Á sjötta hundrað björgunarsveitamanna hafa leitað Birnu og vísbendinga um hvarf hennar í dag og í gær. Um klukkan þrjú í dag voru björgunarsveitarmenn kallaðir til bækistöðva sinna í Hafnarfirði og í Grindavík. Þá stóð til að endurskipuleggja leitina vegna nýrra vísbendinga.
Grímur Grímsson, yfirmaður rannsóknar á hvarfi Birnu, sagði í dag að lögregla geti með óyggjandi hætti sýnt fram á að Birna hafi verið í rauðri Kia Rio-bifreið, sem lögregla lagði hald á á þriðjudag. Lífsýni sem send voru til Svíþjóðar, hafi reynst vera blóð úr Birnu.