Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fannst látinn í íshelli á Blágnípujökli

01.03.2018 - 03:10
Mynd með færslu
 Mynd:  - Pexels
Íslenskur karlmaður á sjötugsaldri sem leitað var að í íshelli í Blágnípujökli fannst á tólfta tímanum í gærkvöld. Að sögn lögreglunnar á Suðurlandi var maðurinn úrskurðaður látinn á vettvangi. Samferðafólk mannsins var flutt í skála í Kerlingafjöllum og verður flutt áfram þaðan til byggða. Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn á tildrögum slyssins.

Lögreglan skrifaði á Facebook klukkan 2.10 í nótt að veður hafi hamlað flugi þar til rétt um tvöleytið. Þá gátu flugmenn Landhelgisgæslunnar flogið af vettvangi. Þá tekur nokkurn tíma fyrir aðra sem af verkefninu komu að komast til byggða. 

Lögreglan færir öllum björgunaraðilum þakkir, sem og ferðaþjónustuaðilum, sem veittu mikilvæga aðstoð.

Hátt í 200 björgunarsveitarmenn, slökkviliðsmenn og sjúkraflutningamenn tóku þátt í aðgerðunum. Klukkan sex síðdegis var tilkynnt að maður sem fór inn í nýuppgötvaðan íshelli hefði ekki skilað sér út. Íshellirinn er varasamur því þar geta hættulegar lofttegundir eins og brennisteinsvetni, brennisteinsdíoxið og kolmónoxíð myndast í jöklinum. Samkvæmt mælum fólks, sem var á ferð með þeim sem nú er saknað, var hátt gildi brennisteinsvetnis í íshellinum.

Björgunarsveitir af Norðurlandi, Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út og reykkafarar frá Ísafirði fóru á vettvang með þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem var þar á ferð. Erfiðlega gekk að komast að staðnum. Þyrlan gat ekki lent við jökulinn heldur lenti hún við Kerlingarfjöll og voru björgunarmenn fluttir landleiðina þaðan. Björgunarsveitir þurftu að takast á við slæmt færi til að komast landleiðina að íshellinum. Fyrstu björgunarsveitarmenn komu að íshellinum um klukkan átta í gærkvöld og skömmu fyrir klukkan níu fóru fyrstu björgunarmenn inn í jökulinn til leitar.