Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fann gleði í smíðum, steypu og mistökum

Mynd: Ásmundarsalur / Ásmundarsalur

Fann gleði í smíðum, steypu og mistökum

13.09.2019 - 15:50

Höfundar

„Það er bara frábært og þvílíkur léttir,“ segir myndlistarkonan Elín Hansdóttir þegar útsendari Ríkisútvarpsins sagðist ekki alveg hafa skilið sýninguna hennar í Ásmundarsal við Freyjugötu. Þar vinnur Elín með rýmið sjálft sem hún smækkar niður í skúlptúr og ljósmyndum en bætir líka við dularfullum göngum sem eins og svífa inni í salnum, en þó ekki.

Á sýningunni Annarsstaðar í Ásmundarsal við Freyjugötu sýnir Elín Hansdóttir skúlptúra úr túrmerik-gulri steypu og uppstækkaðar ljósmyndir innan úr steypumótum sem notuð voru til að gera skúlptúrana. 

„Ég er í rauninni búin að steingerva loftið hér inni í sýningarsalnum – eða innanrúmi rýmisins. Svo bæti ég við ímynduðu rými inn í skúlptúrinn sem eru göng, en ég hef lengi verið upptekin af þeim í verkum mínum og gert þau ófá,“ segir Elín Hansdóttir. „Ég sneiði rýmið í raun í tvennt, tek það í sundur eins og ávöxt og þar inni reynist vera leynirými sem er í rauninni í hlutföllum við manneskjuna.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ásmundarsalur
Rýmið inni í rýminu, inni í rýminu.

Tenging við Ásmund

Elín segir að Ásmundur Sveinsson sé henni mikill innblástur, ekki síst viðmót hans gagnvart listinni. „Hvernig hann hugsaði um vinnuna og sjálfsbjörgina heillar mig. Hann gafst ekki upp. Þetta gerði það að verkum að mig langaði að gera þetta allt sjálf á þessari sýningu, ég smíðaði þessi steypumót, hrærði steypuna, tók myndirnar og svo framvegis. Ég lærði því þetta handverk með því að prófa mig áfram og gera mistök. Það tengist pælingum mínum um gildi handverksins í nútímanum þar sem listaverk eru oft unnin fyrir listamenn af fólki og fyrirtækjum úti í bæ eða úti í heimi. Ég hef bara einstaklega gaman að því að smíða og er bara að læra það. Þetta veitir mér gleði, sem er auðvitað mikilvægt. Hver er munurinn á því handgerða og því sem vélarnar gera? Jú, það er kannski þessi ófullkomleiki sem er heillandi líka.“

Nánar er rætt við Elínu í viðtalinu úr Víðsjá sem má hlusta á hér að ofan. Tónlistin er úr smiðju Grandbrothers tvíeykisins en einnig hljóma gömul viðtalsbrot við Ásmund Sveinsson úr safni Ríkisútvarpsins.