Fann gæsaregg í hreiðri æðarkollunnar

04.06.2019 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Pálsson
Æðarbóndi við Eyjafjörð rak upp stór augu þegar hann sá þrjú gæsaregg innan um eggin í einu hreiðrinu í varpinu. Þar hafði gæs gert sig heimakomna og verpt í hreiður kollunnar. Hins vegar er ekki ljóst hvort var á undan, gæsin eða æðarfuglinn.

Nokkrir æðarbændur sem rætt var við kannast við að þetta hafi gerst. Og þá hafi það jafnvel gerst að gæs og æðarkolla hafi sameinast um að liggja á eggjunum.

Grágæsin verpir jafnan á undan æðarkollunni og ekki ólíklegt að hún hafi þarna séð álitlega hreiðurskál og verpt í hana. Æðarkollan hafi síðan komið á eftir og verpt í sitt hreiður. En hvað sem því líður þá er þetta æðarvarp og óvíst hvort gæsin er þar velkomin viðbót.

Æðarkollan er þekkt fyrir að verja varp sitt, fyrir ágangi svartbaks til dæmis. Því segja kunnugir litla hættu á því að gæs geti tekið yfir hreiðrið hennar. Þvert á móti er grágæsin sögð viðkvæm á varptímanum og vilji því hafa sitt hreiður í næði.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi