Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fangi strauk og fannst fyrir utan bíó

Mynd með færslu
 Mynd: Fangelsismálastofnun
Fangi slapp úr haldi í fangelsinu á Akureyri seinnipartinn í gær. Hann fannst fyrir utan Borgarbíó í miðbæ Akureyrar í gærkvöld og var kominn aftur í varðhald rétt fyrir klukkan ellefu. Fanginn var langt kominn með afplánun sína, en dagsleyfi hans verður afturkallað vegna stroksins í að minnsta kosti tvö ár. Maðurinn er ekki talinn hættulegur.

Var að sinna garðstörfum og strauk

Atvikið átti sér stað um klukkan korter yfir fjögur í gær. Manninum, sem er á fertugsaldri, hafði verið treyst til þess að sinna garðverkum í fangelsisgarðinum, enda langt kominn með sína afplánun og var byrjaður að fá dagsleyfi frá fangelsinu. Þegar litið var af honum við garðstörfin fór hann í burtu. Samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn ekki talinn hættulegur. Eftir nokkuð umfangsmikla leit lögreglunnar á Akureyri fannst maðurinn í gærkvöldi fyrir utan Borgarbíó í miðbæ Akureyrar og var kominn aftur í fangelsið rétt fyrir klukkan ellefu. 

Alvarlegt agabrot

Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsisins á Akureyri, segir strok úr fangelsi alltaf alvarlegt agabrot. Í öllum tilvikum sæti fangar sem slíkt gera agaviðurlögum vegna stroks. 

„Hann brýtur reglur sem eru byggðar á lögum um fullnustu refsinga,” segir Guðmundur. „En fyrst og fremst hefur þetta afleiðingar fyrir fangann sjálfan í afplánun.”

Missir dagsleyfi í að minnsta kosti tvö ár

Hann tekur dæmi um að þetta geti haft áhrif á hvort maðurinn fái reynslulausn og bendir á að svona brot hafi bæði afleiðingar til skamms tíma og lengri tíma.

„Þegar fangar brjóta af sér almennt þá geta þeir misst ýmsar ívilnanir,” segir Guðmundur. Samkvæmt lögum um fullnustu refsinga þá missa fangar sem strjúka alfarið dagsleyfi sín í að minnsta kosti tvö ár. 

Árétting 
Í frétt á vef RÚV um málið í gærkvöld kom fram að maðurinn hafði verið laus í um klukkustund. Það eru upplýsingar sem fengust frá lögreglunni á Akureyri á þeim tíma, en rétt er að hann var laus í tæpar átta klukkustundir. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður