Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fangelsismálin snúast alltaf um peninga

08.07.2019 - 09:54
Mynd: Birgir Þór Harðarson / Birgir Þór Harðarson
Aðbúnaður í fjórum íslenskum fangelsum er ekki alls kostar viðunandi, segir í bráðabirgðaskýrslu pyntinganefndar Evrópuráðsins. Málið snýst alltaf um peninga, sagði Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu, félags fanga, í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Guðmundur Ingi segir að aðbúnaður í íslenskum fangelsum sé allt í lagi. Það sé þó ekki aðalatriðið, heldur innihald fangavistarinnar. 

Innihaldið skipti mestu máli

„Það er innihald fangavistarinnar sem skiptir kannski mestu máli í þessu og þar erum við mjög eftir á í raun og veru. Það er kannski það sem pyntinganefndin hafði mest út á að setja, svona sérfræðiheilbrigðisþjónusta,“ segir Guðmundur.

Það sé þjónusta á borð við sálfræði- og tannlæknaþjónustu. Guðmundur segir að flestir afpláni án þess að hitta nokkurn tímann sálfræðing og erfitt sé að fá viðtalstíma. Ekki sé nægur mannskapur til að sinna þjónustunni.

Aðstandendur hafi engan stað til að leita á

Guðmundur segir mikilvægt að taka upp betrunarstefnu hér á landi. Með því sparist fé á öllum sviðum þegar fram í sækir. Auk þess fækki þá glæpum og endurkomum. Stjórnmálamenn hugsi hins vegar bara kjörtímabilið á enda. 

Aðstaða hyggst opna móttökumiðstöð fyrir aðstandendur fanga. Guðmundur segir að þau hafi engan stað til að leita á og daglega fái samtökin símtöl frá aðstandendum og föngum sem eigi mjög erfitt. Auk þess segir Guðmundur að erfitt geti verið fyrir sveitarfélög að finna húsnæði fyrir fanga. Því sitji sumir lengur inni en dómur kveði á um. Það sé annað sem samtökin ætli sér að vinna í. 

Bæta megi ýmis atriði

Samkvæmt skýrslunni, sem er að mestu jákvæð, kemur fram að það megi bæta ýmis atriði eins og heilbrigðisþjónustu. Of fáir heilbrigðisstarfsmenn starfi innan veggja íslenskra fangelsa. Þá sé aðgengi fanga að sérfræðilæknum, einkum geðlæknum en einnig tannlæknum, ábótavant. Fangar sem glíma við andleg veikindi fái ekki þá þjónustu sem þeir eigi rétt á, til dæmis vistun á geðsjúkrahúsi.

Dómsmálaráðuneytið segir að unnið sé að endurbótum í samræmi við aðrar ábendingar í skýrslunni, til að mynda um geðheilbrigðisþjónustu við fanga sem unnið sé að í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið. Búið sé að óska eftir tilnefningum í hóp um úrbætur í fangelsismálum og skipar dómsmálaráðherra hópinn á næstunni.

Auk þess verði að koma í veg fyrir fíkniefnanotkun innan fangelsanna og hefur íslenskum yfirvöldum verið fenginn þriggja mánaða frestur til að skila ítarlegri aðgerðaáætlun um endurbætur. Ofbeldi meðal fanga á Litla-Hrauni er nefnt sérstaklega og sagt að það tengist notkun fíkniefna.