Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fangelsi á ekki að vera kjötkælir eða geymsla

18.12.2019 - 09:12
Mynd:  / 
„Það að fara að vinna með fangelsin er hluti af samfélagsheilun,“ segir Tolli Morthens. Það sé grundvallaratriði að nálgast málefni fanga af virðingu og kærleik. Tolli fór fyrir starfshóp félagsmálaráðuneytisins um málefni fanga. Hann segir að aldrei áður hafi verið sett fram sams konar pólitísk nálgun á málaflokkinn.

Hlutverk fangelsa skilgreint

Meðal tillaga hópsins er að sálfræðiþjónusta, félagsráðgjöf og fíkniráðgjöf standi föngum til boða strax frá uppkvaðningu dóms. Það þýðir á meðan beðið er afplánunar, á meðan hún stendur yfir og eftir að henni lýkur.

Helsta breytingin felst í því að hlutverk fangelsa sé skilgreint, segir Tolli. „Að fangelsi séu staðir þar sem betrunarferli er í gangi. Refsing hefur þegar átt sér stað. Þú brýtur lög og þú ert dæmdur og þú ert sviptur frelsi. Það er gríðarleg refsing. Þá er það spurningin, á fangelsi að vera kjötkælir, geymsla? Á þetta að vera áframhaldandi refsing? Eða ætlum við að skoða orsakir og afleiðingar í þessu samhengi og fara í það sem við köllum betrun,“ segir Tolli í Morgunútvarpi Rásar 2.

„Reyna að sefa eða deyfa vonlausa stöðu eða tilfinningar“

Enginn þeirra sem þarna er inni er glæpamaður, heldur eru þetta manneskjur, segir hann, þó þeir séu með þann merkimiða á sér. „Langflestir þeirra sitja þarna inni út af þessu orsakasamhengi að hafa lent í áföllum sem börn og unglingar. Áföllin valda því að þú ferð úr tengslum við kjarnann í þér og vitundin fer að lifa í stjórnlausu rými.“ Það leiði til þess að menn fari að reyna að lækna sig sjálfir með lyfjum. 

„Það er ástæða fyrir því að við fíklar erum að nota efni. Við erum yfirleitt að reyna að lækna okkur, að reyna að sefa eða deyfa vonlausa stöðu eða tilfinningar. Það er svo mikilvægt að geta sagt við þessa stráka; í kjarnann hafiði alltaf verið heilir allan þennan tíma en þið hafið verið utan þjónustusvæðis við sjálfa ykkur,“ segir hann. Heilunarvinna geti tekið mörg ár.

Hann segir að áframhaldandi vinna taki við á nýju ári. Ermar verði brettar upp strax eftir áramót. 

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum fyrir ofan.