Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Falsaðar fréttir og dulbúnar auglýsingar

28.12.2015 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: instagram
Aðgengi að ljósmyndum og myndböndum er að mörgu leyti miklu orðið miklu betra vegna internetsins, samfélagsmiðla og snjallsíma. Fólk á vettvangi birtir oft myndir af atburðum fljótlega eftir að þeir gerast eða jafnvel á meðan á þeim stendur. Ýmislegt getur þó farið úrskeiðis. Mörg dæmi eru um það á þessu ári að í fréttir hafi ratað myndir sem tengdust atburðunum sem um ræddi ekki neitt. Stundum fyrir mistök. Í öðrum tilvikum var um dulbúnar auglýsingar að ræða eða jafnvel vísvitandi falsanir.

Margar fréttamyndir af atburðum þessa árs voru ekki teknar af ljósmyndurum á vegum fjölmiðils heldur af venjulegu fólki, vopnuðu farsíma. Aðrar myndir hafa verið teknar af samfélagsmiðlum – til dæmis gamlar myndir af fólki sem óvænt er í fréttum, eða myndir af stöðum þangað sem erfitt er að komast.

Framboð af fréttamyndum er meira og um margt betra. En margt ber að varast, eins og úttekt Breska ríkisútvarpsins á nokkrum misvísandi fréttamyndum ársins sýnir.

Gömul mynd frá öðru landi

Stór jarðskjálfti í Nepal – 7,9 að stærð – varð 25. apríl. Nær 8.600 fórust. Talið er að hátt í þrjár milljónir Nepalbúa hafi þurft neyðaraðstoð. 

Ein þeirra fréttamynda sem birtar voru eftir skjálftann var sögð vera af systkinum sem reyndu að hugga hvort annað.

Ljósmyndarinn, Na Son Nguyen, segir í samtali við BBC að þetta sé ef til vill sú mynd hans sem farið hafi víðast. En hún var ekki tekin í Nepal 2015. Myndin var tekin í afskekktu þorpi í Víetnam árið 2007. 

Önnur gömul mynd sem fór víða á samfélagsmiðlum, er mynd sem tekin var á tónleikum Eagles of Death Metal. Sögunni fylgdi að myndin væri tekin fáeinum andartökum áður en vopnaðir menn réðust inn á Bataclan tónleikastaðinn í París og myrtu 89 tónleikagesti.

This view never, ever, ever, ever gets old.Taken Monday night at Dublin's Olympia Theatre by our very own Julian Dorio.

Posted by Eagles Of Death Metal on Thursday, November 12, 2015

Hið rétta er hins vegar að myndin var tekin í Olympia Theathre í Dublin á Írlandi. Hún var sett á Facebook-síðu hljómsveitarinnar daginn áður en hún spilaði í París. 

Hryðjuverkamenn sagðir meðal flóttafólks

Nokkrar myndir birtust á samfélagsmiðlum á árinu, þar sem því var haldið fram að flóttamenn á leið til Evrópu, væru að stórum hluta vígamenn eða hryðjuverkamenn. Jafnvel var látið að því liggja að einhvers konar innrás stæði yfir.

Ítrekað hefur verið sýnt fram á að myndir sem þessar séu falsanir, áróður, lygar.

Flóttamenn og fréttir dulbúnar sem auglýsingar

Á árinu 2015 voru fréttir ekki bara falsaðar til að ala á ótta í garð flóttafólks. Auglýsingastofur sáu sér leik á borði til að vekja athygli á umbjóðendum sínum. Ævintýralegri ferð Abdou Diouf frá Dakar í Senegal til Evrópu var lýst ítarlega á Instagram.

 

Diouf var leikinn af Barselónabúanum Hagi Toure. Auglýsingaherferðinni var ætlað að vekja athygli á ljósmyndahátíð á Spáni.