
Maðurinn óskaði fyrst eftir endurupptöku í mars fyrir tveimur árum. Endurupptökunefnd hafnaði þá beiðni hans. Hann fór með málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem felldi úrskurð endurupptökunefndar úr gildi.
Maðurinn óskaði í framhaldinu eftir því að mál hans yrði tekið upp að nýju. Beiðni hans um endurupptöku var byggð á því að ekki hefði verið farið að lögum þegar ákæran í málinu var birt. Hún hefði verið birt lögreglumanni sem hefði verið staddur á heimili hans eingöngu í þeim tilgangi að taka við fyrirkalli og ákæru.
Ríkissaksóknari lagðist gegn því að beiðni mannsins yrði samþykkt þar sem þessi galli hefði ekki áhrif á niðurstöðu dómsmálsins.
Endurupptökunefnd segir hins vegar að gallinn hafi falið í sér frávik frá þeirri grunnreglu að ekki megi dæma menn til refsingar nema þeim hafi verið gefinn kostur á að halda uppi vörnum.
Þar sem ekki hafi verið farið að lögum þegar ákæran var birt hafi ekki verið skilyrði til þess að leggja dóm á málið að manninum fjarstöddum.