Fallegar fréttir á erfiðum tímum

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV

Fallegar fréttir á erfiðum tímum

16.03.2020 - 11:31
Það getur allt litið frekar ömurlega út á fyrsta degi fjögurra vikna samkomubanns í miðjum heimsfaraldri. Ef það var einhvern tímann dagur til þess að líta á björtu hliðarnar þá er það sennilega í dag. Við tókum saman nokkrar góðar fréttir sem hægt er að gleðjast yfir á þessum fordæmalausu tímum.

Til að byrja með þá á poppkonungur Íslands, Páll Óskar, fimmtíu ára afmæli í dag. Glimmergoðsögnin hefur heldur betur hjálpað Íslendingum að tjútta í gegnum tíðina og gefið okkur ómótstæðilegar gleðisprengjur. Það er viðeigandi að vitna í eitt af lögunum hans hér, Líttu upp í ljós, í gráu skýi er sólskinið falið en þá er um að gera að reyna að finna það. 

Ástandið er víða alvarlegt og á Ítalíu og á Spáni hefur útgöngubann til dæmis verið sett á. Samstaða nágranna í þessum löndum getur hins vegar hlýjað okkur um hjartarætur og margir hafa birt myndbönd af heilum hverfunum á Ítalíu að syngja saman. Einhverjir hrekkjalómar hafa reynt að blekkja stjörnur á borð við Madonnu og Katy Perry og birt myndbönd þar sem nágrannar virðast syngja lög þeirra saman, eins og má sjá hér fyrir neðan. Madonna og Perry birtu báðar myndböndin á Twitter hjá sér en nú er í ljós komið að um fals er að ræða og að Ítalir hafi alls ekki verið að syngja Roar saman. 

Það er svo auðvitað ekkert sem bannar okkur Íslendingum að skella okkur út á svalir að syngja en viðmiðið hefur verið sett hátt því óperusöngvarinn Gissur Páll gladdi nágranna sína með svalasöng um helgina. Myndbandið má sjá hér

Fréttir bárust af því um helgina að lóan væri komin sem er auðvitað tilefni til þess að gleðjast og við getum farið að vonast til að fá bráðum vor eftir óteljandi gular, appelsínugular og rauðar viðvaranir það sem af er ári. 

Mynd með færslu
Lóan kom til landsins í gær Mynd: Elma - Wikimedia Commons
Já, lóan er komin!

Leikararnir í Friends hafa lengi verið uppspretta gleði hjá mörgum. Nýlega bárust fréttir af því að þau muni koma saman í sérstökum endurfundaþætti á HBO. Þangað til getum við samt skemmt okkur yfir samskiptum vinanna á samfélagsmiðlum. Hér fyrir neðan má sjá Courtney Cox, sem lék Monicu Geller, reyna við dansáskorun á samfélagsmiðlinum TikTok.

Það sem er hins vegar enn skemmtilegra er athugasemd Matthew Perry, sem lék auðvitað Chandler, eiginmann Monicu: „Hi honey, what the hell just happened?“ eða „Hæ elskan, hvað í ósköpunum var að gerast?“ Við getum reyndar ekki annað en dáðst að þessum danssporum. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Could this be why Coco and Johnny are socially distancing themselves from me? #bored #quarentine

A post shared by Courteney Cox (@courteneycoxofficial) on

Við endum þetta á samantekt The Guardian á nokkrum góðum og fallegum fréttum. Til að mynda fréttum af pizzastað í New York sem gerir sitt besta við að koma flækingshundum á góð heimili með því að dreifa auglýsingum fyrir þá á pizzakössunum sínum.