Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fálkaorðan til sölu á Facebook

07.07.2015 - 18:14
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Ólason - Facebook
Hin íslenska fálkaorða er föl fyrir 180.000 krónur á Facebook-síðunni Brask og brall. Seljandinn segir ekkert ólöglegt við athæfið.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fálkaorða er til sölu. Ég keypti hana á uppboði í Bretlandi og sé ekki fyrir mér að ég geti labbað með hana um bæinn."

Hann bætir því við að ef vel sé að gáð, sé ekki um að ræða fálkaorðu íslenska ríkisins. „Þessi er með konungskórónu svo það eru engin íslensk lög og reglur sem ná yfir þetta. Þetta er fálkaorða konungsins, sennilega gefin út 1918. Ég hef engar áhyggjur af því að selja þetta, ég tel að þetta sé ekki ólöglegt. Ég get ekki ímyndað mér að það nái nokkur lög yfir þetta."

Í lögum um hina íslensku fálkaorðu kemur fram að við andlát skuli aðstandendur eða skiptastjóri skila henni aftur til orðuritara.

Taka skal fram að Kristján tíundi Danakonungur gaf út konungsbréf um stofnun hinnar íslensku fálkaorðu árið 1921, og var hann fyrsti stórmeistari fálkaorðunnar.

Forsetabréf um hina íslensku fálkaorðu má finna hér.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður