Fáir á ferli í snjókomu á Siglufirði

10.12.2019 - 11:55
Mynd: Ingvar Erlingsson / RÚV
Hann blés hressilega úr norðri á Siglufirði á ellefta tímanum í morgun og það snjóaði. Á meðfylgjandi myndbandi sem Ingvar Erlingsson tók fyrir Fréttastofu má sjá að það voru ekki margir á ferli í óveðrinu.

Sævar Eyjólfsson íbúi á Siglufirði segir flesta hafa gert ráðstafanir vegna veðursins. Fáir séu á ferli í bænum. „Ætli það séu ekki flestir að fara eftir þeim leiðbeiningum sem hafa verið gefnar í fréttum,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Þegar rætt var við Sævar rétt fyrir hádegi í dag snjóaði töluvert en vindur hafði gengið niður, þó það blési duglega í hviðum. „Þetta var eiginlega verra í morgun. Það var slæmt í kringum klukkan 6. Þá komu góðar hviður,“ segir Sævar.

Spurður hvort hann hafi gert einhverjar ráðstafanir vegna veðurspárinnar segist hann hafa bundið allt sem þarf að binda niður utandyra og tekið það inn fyrir sem hægt er að taka inn, í samræmi við leiðbeiningarnar.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi