Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fáheyrður öryggisviðbúnaður vegna komu Pence

03.09.2019 - 12:57
epa07809259 US Vice-President Mike Pence (L) and and his wife Karen Pence wave after arriving at Okecie Airport to the ceremony marking 80th anniversary of World War II outbreakin in Warsaw, Poland, 01 September 2019. Pence represent US President Donald Trump, who has had to postpone his visit planned for 01-02 September, explaining that all federal government resources need to be focused on the incoming hurricane Dorian.  EPA-EFE/Rafal Guz POLAND OUT
 Mynd: EPA
Fáheyrður öryggisviðbúnaður er vegna komu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, hingað til lands á morgun. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir dagskrána hafa tekið miklum breytingum og hann viti ekki sjálfur hvernig hún verði nákvæmlega.

Guðlaugur var gestur í hljóðveri í hádegisfréttum útvarps. 

Hann segir að Pence taki þátt í málþingi sem Íslandsstofa og utanríkisþjónustan hafi skipulagt. Það megi rekja til ákvörðunar hans og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um efnahagssamráð milli landanna. „Markmiðið er að styrkja efnahagsleg tengsl ríkjanna og okkar markmið er mjög skýrt; við erum fríverslunarþjóð og gerum allt hvað við getum til að styrkja samkeppnisstöðu okkar.“ Guðlaugur segir að bara það að Pence komi hingað þýði að kastljós bandarísks efnahagslífs verði á Íslandi.  

Guðlaugur segir að öryggisviðbúnaður vegna komu Pence sé mun meiri en hjá öðrum ráðamönnum sem hingað hafa komið. Og ráðherrann segist ekki vita endanlega dagskrá varaforsetans - hún hafi tekið miklum breytingum. 

Fréttastofa hefur reynt að afla upplýsinga hjá ríkislögreglustjóra, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, embætti forseta Íslands og utanríkisráðuneytinu, svo fátt eitt sé nefnt, en litlar upplýsingar fást, þar sem dagskráin virðist enn vera í mótun. Pence hefur dvalið á Írlandi síðustu daga og á að fara til Bretlands annað kvöld. Hann leggur því lykkju á leið sína til að koma til Íslands. Hann lendir á Íslandi á morgun í einkaþotu varaforseta Bandaríkjanna, Air Force Two. 

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia verður mikill viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli en Landhelgisgæslan er með hann á sinni könnu. Samkvæmt upplýsingum þaðan er ekki hægt að veita nákvæmar upplýsingar, af öryggisástæðum, en að minnsta kosti 30 starfsmenn gæslunnar koma að verkefninu. Þetta verður meðal annars séraðgerð hjá sprengjuæfingasveitinni, flugdeildin verður til taks, mögulega með þyrlu á lofti.

Á Keflavíkurflugvelli eru núna tvær bandarískar sjúkraþyrlur til taks vegna heimsóknarinnar, en í gær komu þangað þrjár ospray-flugvélar frá bandaríska hernum, sem notaðar eru í herflutningum, og að minnsta kosti tvær Herculesvélar þeim til stuðnings. Ein Lockhead Galaxy flugvél kom um svipað leyti til Keflavíkur og er á vellinum, en hún er notuð til að flytja hingað búnað vegna heimsóknarinnar. Ekki fæst uppgefið hversu margir koma með varaforsetanum. 

Ekki hafa fengist staðfestar upplýsingar um mögulegar götulokanir á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við heimsóknina, en íbúar mega gera ráð fyrir talsverðum umferðartöfum. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir allt skipulag, viðbúnað og öryggisgæslu utan vallar á forræði ríkislögreglustjóra.

Seinni partinn í gær bárust þær fregnir frá forsætisráðuneytinu að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar að hitta Pence í húsi Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli annað kvöld. Þá verður hún nýkomin til landsins frá Svíþjóð og á leið áfram í Evrópuför sinni, til Bretlands. Til stóð að Pence hitti Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, en það er ekki staðfest. Fyrir liggur þó að Pence hittir Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Dag B. Eggertsson borgarstjóra, en staður og stund hefur ekki verið gerð opinber. Fréttastofa hefur þó upplýsingar um að búið er að taka Höfða frá allan morgundaginn og gera öryggisgirðingar klárar þar í kring.