Fagnar samtali en lausnirnar blasa ekki við

24.07.2019 - 14:37
Mynd með færslu
 Mynd: Tómas Guðbjartsson - Aðsend mynd
Stjórnarformaður Vesturverks fagnar því að geta rætt við umhverfisráðherra, um leiðir til þess að takmarka rask við gerð Hvalárvirkjunar. Lausnir blasi þó ekki við.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra sagði í fréttum sjónvarps í gær að hann hefði áhyggjur af væntanlegum framkvæmdunum á Ófeigsfjarðarheiði. Leggja á veg á heiðina svo hægt sé að rannsaka aðstæður betur áður en framkvæmdir við sjálfa Hvalárvirkjun hefjast.

Á þessu stigi getur ráðherra ekkert gert til þess að hafa áhrif á framkvæmdir við Hvalárvirkjun, annað en að höfða til framkvæmdaaðila.

„Við fögnum slíku samtali og viljum vinna að leiðum til að minnka áhrifin, það er ekki nokkur spurning,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og stjórnarformaður Vesturverks, sem annast framkvæmdina.

„En ég skil orð ráðherra þannig að það sé meira þegar komið er norður fyrir Hvalá og vegalagningu á Ófeigsfjarðarheiði sem að væri þá áhugi til að skoða hvort væri hægt að haga með öðrum hætti en verið hefur,“ segir Ásgeir.

„Það hefur vissulega verið skoðað og ýmsar útfærslur skoðaðar og það er sjálfsagt að skoða það áfram með hvaða hætti er hægt að draga sem mest úr áhrifum á umhverfi. Án þess að ég hafi lausnir á því akkúrat hér og nú.“

Framkvæmdir eru þegar hafnar

Framkvæmdir við vegagerð í Ingólfsfirði og Ófeigsfirði eru þegar hafnar. Brú verður lögð norður yfir Hvalá og vegur upp á heiðina en þangað hefur aðeins verið fært göngufólki.

Skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélagsins Árneshrepps.

„Mér finnst það nú í sjálfu sér eðlilegt að fólk hafi áhyggjur af svona. Það finnst mér allt í lagi,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi, en hún efast um að hreppsnefndin fari fram á að framkvæmdaaðilar takmarki rask enn frekar. Unnið sé eftir hefðbundnum verkferlum og umhverfisáætlunum.

„Það vita náttúrlega allir að þetta er unnið eftir rammaáætlun sem gerð var á Alþingi. Svo hafa undangengnar hreppsnefndir í Árneshreppi verið með virkjun. Þannig að ég held að það verði kannski ekki nein straumhvörf í þessu máli,“ segir Eva.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi