Fagnar lífinu með því að ganga yfir Vatnajökul

Mynd: RÚV / RÚV

Fagnar lífinu með því að ganga yfir Vatnajökul

17.03.2020 - 15:07

Höfundar

„Mér var upphaflega gefið eitt til þrjú ár og nú eru komin fimm ár. Ég er hraust og heilbrigð og líður gríðarlega vel,” segir G. Sigríður Ágústsdóttir, jafnan kölluð Sirrý, sem stefnir á að ganga yfir Vatnajökul í næsta mánuði, 150 kílómetra leið, ásamt fjórtán öðrum konum.

 

 Þar er á ferð hópurinn Snjódrífurnar sem standa fyrir átaksverkefninu Lífskrafti sem er ætlað að hvetja fólk til þess að finna sinn lífskraft, meðal annars í gegnum hreyfingu

Voru gefin 1-3 ár
Hugmyndin kviknaði vegna persónulegrar reynslu Sirrýjar en hún hefur tvisvar verið greind með krabbamein - í síðara skiptið ólæknandi. 

„Ég stóð frammi fyrir því að vera að fagna áfanga, að það væru komin fimm ár síðan ég hafði greinst í seinna skiptið með krabbamein. Ég upphaflega fékk ekki fimm ár að gjöf við þá greiningu. Mér fannst það vera tilefni til að fagna því á einhvern hátt. Mér fannst Vatnajökull vera svolítið táknrænn; bæði er hann gríðarlega erfiður og mikil áskorun. Það sem ég hef lært í þessu veikindaferli er að veikindi og áföll og annað eru rosalega mikil áskorun. En þetta hefst allt með einu skrefi og þannig ætlum við að fara yfir jökulinn, eitt skref í einu,” segir Sirrý. 

Landinn leit við á gönguskíðaæfingu hjá hluta hópsins í Bláfjöllum á dögunum. Í hópnum eru fimmtán konur en þær ætla einnig að ganga á Hvannadalshnjúk, rúmum mánuði eftir gönguna á Vatnajökul. Markmiðið með Lífskrafti er að safna áheitum fyrir félögin Kraft, félag ungs fólks með krabbamein, og Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans. Jafnframt vilja þær minna á mikilvægi útivistar og sjálfseflingar í endurhæfingu eftir veikindi.

Fann innri frið á fjöllum
„Ég er dugleg að vera á fjöllum, ég fann svolítið minn frið og mína orku á fjöllum. Það var borðleggjandi að búa til einhvern svona valkyrjuhóp og arka af stað yfir Vatnajökul,” segir Sirrý. 

„Fyrir mig er kannski jökullinn líka svona táknrænn. Mér reyndist rosalega erfitt að vera í einangrun þegar ég var í veikindunum, ég var mikið í einangrun sem að örugglega margir tengja við bara í dag í þessu Covid standi. Vatnajökull er ákveðin einangrun líka, það er pínu einangrun að fara upp á stóran jökul sem enginn er að þvælast á dagsdaglega,” segir Sirrý. 

Vonast til að fá fólk með sér 
Við erum allar að æfa, eitthvað æfum við saman og svo æfum við líka hver í sínu horni. Við erum að lyfta, förum út að hlaupa, förum í fjallgöngur og á skíði að sjálfsögðu,” segir Kolbrún Björnsdóttir, ein af Snjódrífunum sem vonast til að fá sem flesta með sér á hreyfingu. 

„Já, við erum að vonast til þess að þegar við göngum yfir jökulinn þá séum við ekki einar að ganga og okkur langar ofboðslega til að fá sem flesta, bæði konur og karla, til þess að ganga um allt land. Það þarf alls ekki að vera gönguskíði. Bara reima á sig hvort sem það eru strigaskórnir, gönguskórnir eða hvað. Og bara fara út að ganga.hvort sem það er í kringum hverfið, út götuna eða bara hver eftir sínu formi en við trúum því að þá verði gangan yfir jökulinn auðveldari fyrir okkur ef fólk er að ganga með okkur og við erum líka að hvetja fólk til þess að finna sinn lífskraft,” segir Kolbrún. 

Nánar er hægt að fræðast um verkefnið hér og fylgjast með undirbúningi.