Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fagnar boðuðum aðgerðum ráðherra í þágu barna

29.05.2019 - 11:40
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi fagnar boðuðum aðgerðum félags- og barnamálaráðherra vegna þeirrar tölfræði sem UNICEF birti í síðustu viku. Þar kom fram að um 13 þúsund barna verði fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn, eða um 16,4 prósent.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti fimm verkefni á vegum ráðuneytis síns í gær. Í fréttatilkynningu sem barst með aðgerðaráætluninni í gær sagði hann að staðan væri alvarleg, „ekki síst í ljósi þess hversu alvarlegar og jafnvel varanlegar afleiðingar ofbeldi getur haft á líf barna."

Fimm verkefni ráðuneytisins

Eftir ítarlega skoðun á efni tillagna og tölfræði UNICEF á Íslandi ákvað félags- og barnamálaráðherra að fara af stað með eftirtalin verkefni. Í fyrsta lagi tilraunaverkefni í samvinnu við eitt eða fleiri sveitarfélög þar sem áherslu verður á hvernig megi greina upplýsingar þvert á kerfi sem benda til óviðunanddi aðstæðna barna. Markmið verkefnisins er að gripið verði fyrr inn í með stuðningi og þjónustu ef hægt er.

Annað verkefnið verður einnig unnið í samvinnu við sveitarfélög. Þar verður stefnt á að gera mælingu á velferð barna á ákveðnu svæði og beina sjónum stjórnvalda að verkefnum sem brýnt er að takast á við. 

Þriðja verkefnið verður að koma á fót upplýsingamiðstöð undir forsytu félagsmálaráðuneytisins. Miðstöðin verður sett á laggirnar með aðkomu opinberra stofnana, frjálsra félagasamtaka, háskólasamfélagsins og fleiri viðeigandi aðila. Miðstöðin á að halda utan um upplýsingar, rannsóknir, tölfræði og fleia sem varðar ofbeldi gegn börnum.

Í fjórða lagi verður gert átak í gerð fræðsluefnis um ofbeldi gegn börnum og tilkynningarskyldu í barnavernd sem sérstaklega veðrur aðlagað að starfsfólki leikskóla. Það verður unnið í samvinnu við menntamálaráðuneytið.

Þá segir í tilkynningu félags- og barnamálaráðuneytisins að ýmsar aðgerðir sem munu koma að gagni í baráttu gegn ofbeldi gegn börnum í framkvæmdaáætlun um barnavernd 2019 til 2022.

Fjöldi opnað sig við UNICEF

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segist fagna verkefnunum sem ráðherra hefur boðað. Til að mynda gegni fræðslumiðstöðin þeim meginhlutverkum sem UNICEF hefur viljað að svokallað ofbeldisvararráð sinni. Enn sé þó mikil vinna framundan og viðbragða sveitarfélaga sé beðið, er haft eftir honum í fréttatilkynningu.
Átak undir yfirskriftinni Stöðvum feluleikinn hófst í síðustu viku og stendur enn. Yfir níu þúsund manns hafa skrifað undir ákallið á unicef.is. Bergsteinn segist þó vilja sjá mun fleiri undirskriftir, draumurinn sé að einn fullorðinn skrifi undir fyrir hvert einasta barn á landinu, sem eru um 80 þúsund talsins.
Skipting á milli kynjanna í undirskriftum kemur Bergsteini á óvart. Langtum fleiri konur hafa skrifað undir, og eru undirskriftir karla aðeins rétt rúmlega fimmtungur þeirra. „Hvar eru karlarnir?" spyr Bergsteinn.

Bergsteinn segir fjölda fólks hafa hringt í UNICEF með erfiðar sögur á bakinu eftir að átakinu var hrundið af stað. „Sumir eru að deila reynslu sinni af ofbeldi í æsku í fyrsta sinn sem fullorðnir einstaklingar," segir Bergsteinn. Hann segir þetta sýna að svona átak er mikilvægt, og hversu mikilvægt sé að stöðva þennan feluleik.