Fæst við það að ljúga

Mynd:  / 

Fæst við það að ljúga

11.08.2016 - 10:00

Höfundar

Rithöfundurinn Einar Kárason opinberar sinn innri mann í Proust-prófi Egils Helgasonar í útvarpsþættinum „Undir áhrifum“.

Í þættinum segja gestir frá ýmsu sem hefur haft áhrif á líf þeirra og hugarheim. Að auki leggur Egill fyrir gesti sína persónuleikapróf, röð spurninga sem franski rithöfundurinn Marcel Proust gerði vinsælar á sínum tíma, og áttu svörin að varpa ljósi á hvaða mann svarandi hefði að geyma.

Prófið telur alls 36 spurningar, hér að neðan gefur að líta tíu valin svör, en hægt er að hlusta á viðtalið í heild í spilaranum að ofan.

Proust-próf Einars Kárasonar
 

Hvað óttastu mest?

Ég var lengi vel svo vitlaus að ég óttaðist aldrei neitt. Seinna meir fór ég að þróa með mér ótta og fóbíur eins og til dæmis lofthræðslu. Ég fann fyrst fyrir lofthræðslu þegar ég var með dætur mínar nálægt Dettifossi og mér fannst eins það væru ekki nema 10 metrar í brúnina og ég stirðnaði bara upp. 

Hvað er þér verst við í eigin fari?

Ætli það sé ekki óþolinmæði, hún getur gengið út í öfgar.

Hvað er þér verst við í fari annarra?

Óstundvísi, ég verð alveg arfavitlaus ef ég er látinn bíða einhvers staðar.

Hvaða lifandi mann dáirðu mest?

Það er mjög einfalt mál, það er eiginkonan mín Hildur. Hún gerir allt vel sem hún gerir, sérstaklega í sambandi við það að sinna ungviði og koma því á legg. Svo mætir hún erfiðleikum á þann hátt að ég held að það sé ekki hægt að gera betur.

Við hvaða tækifæri lýgurðu?

Það er nú helst bara þegar ég er að störfum, ég fæst eiginlega við það.

Hvað þolirðu verst við útlit þitt?

Nú kemurðu illa á mig, því það hlýtur að vera eitthvað. Ég held að það sé nú bara heildarmyndin.

Hvaða orð eða frasa notarðu of mikið?

Ég var að fá yfirlestur á handriti um daginn og mér var ráðlagt að ‚highlighta‘ orðið „reyndar“, til að sjá hvað ég ofnotaði það rosalega.

Hverjir eru uppáhalds rithöfundarnir þínir?

Þeir höfuðsnillingar norður-evrópskra miðaldabókmennta, sem báðir voru uppi á Íslandi á 13. öld, Snorri Sturluson og Sturla Þórðarson.

Hvernig vildirðu helst deyja?

Ég mundi vilja deyja standandi. Mín hugmynd er sú að einn góðan veðurdag þá sé þetta búið, en ég sé ennþá sæmilega hress. Maður hefur horft upp á fólk veslast upp, hættir að þekkja sínu nánustu og er orðið ósjálfbjarga. Það er eitthvað sem ég veit að mundi ekki henta mér.

Hvert er uppáhaldsblómið þitt?

Ég hef alltaf frá því ég fyrst man eftir mér átt andlegt samband við gleyméreiar. Ég gat rýnt í þær sem barn og ennþá þegar ég sé gleyméreiar þá beygi ég mig niður og dáist að fegurð þessa blóms.

Undir áhrifum er á dagskrá Rásar 1 kl. 13.00 á laugardögum. Næsti gestur Egils Helgasonar verður Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona og varaborgarfulltrúi Bjartrar framtíðar.

Hægt er að nálgast eldri þætti í hlaðvarpi RÚV.

  RSS iTUNES

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Túlípaninn svíkur aldrei“

Menningarefni

Hamingjan er „jeppi á fjalli“