Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Færslu- og þjónustugjöld gætu snarlækkað

16.10.2019 - 21:38
Mynd: Samsett mynd / RÚV
Færslu- og þjónustugjöld banka gætu lækkað verulega með tilkomu opins bankakerfis. Að sama skapi gætu tekjur bankanna dregist verulega saman og eru þeir þegar farnir að búa sig undir harðari samkeppni.

Með opnu bankakerfi fá þriðju aðilar aðgang að bankareikningum viðskiptavina. Þannig gætu íslensk fyrirtæki eða tæknirisar á borð við Facebook og Apple boðið lausnir sem gerir fólki kleift að greiða fyrir vörur eða þjónustu í stað þess að nota hefðbundnar greiðsluleiðir.

Þetta byggir á svokallaðri PSD2 tilskipun frá Evrópusambandinu og kallaði formaður Samtaka fjártæknifyrirtækja eftir því í 10 fréttum í gær að innleiðingarferlinu verði flýtt þar sem töfin getur valdið því að íslensk nýsköpunarfyrirtæki sitji eftir.

Gjöld gætu lækkað um allt að 80 prósent

Því er spáð að opið bankakerfi gjörbreyti því hvernig fólk stundar bankaviðskipti og að kostnaður við þau muni minnka. Þannig verði færslu- og þóknunargjöld banka undir miklum þrýstingi til lækkunar, jafnvel um allt að 80 prósent. Þessar tekjur eru um 20 til 25 prósent af tekjum viðskiptabanka í dag.

 „Það er von þeirra sem að þessu standa að svipað muni gerast eins og gerðist í fjarskiptaheiminum fyrir tíu til fimmtán árum þegar að opnað var á grunninnviði og fljótlega komu nýjar þjónustur sem þurftu ekki að eiga alla innviðina og verð lækkuðu mikið og þjónusta batnaði,“ segir Georg Lúðvíksson, talsmaður Samtaka fjártæknifyrirtækja.

Védís Sigurðardóttir, sérfræðingur á einstaklingssviði Landsbankans, segir að tæplega verði hægt að tala um kollvörpun en að breytingarnar muni koma smám saman í ljós á næstu árum. „Sumir segja að þetta geti kollvarpað bankabransanum en aðrir líta á þetta sem meiri tækifæri og spennandi tímar fyrir viðskiptavini. En það verður svolítil breyting í því hvernig viðskiptavinir geta nálgast bankann sinn.“

Bankarnir þegar byrjaðir að fjárfesta

Bankakerfið er nú þegar farið að búa sig undir þessar breytingar. Benedikt Gíslason, forstjóri Arion banka, sagði í viðtali við RÚV á dögunum að bankinn hafi fjárfest fyrir tvo milljarða í fjártækni og stafrænni þjónustu. Landsbankinn hefur þegar tekið skrefið yfir í PSD2 þjónustu að hluta með opnun sérstaks markaðstorgs sem þjónar sama tilgangi.

„Við erum tilbúin til þess að fara í samstarf með fyrirtækjum á fjártæknimarkaði áður en lögin taka gildi þannig að þau geti boðið viðskiptavinum okkar sem eru hjá sér að greiða til dæmis fyrir vöru eða þjónustu með beinni millifærslu í stað þess að nota kort til að koma greiðslunni á milli. Þannig að já, við erum búin að taka smá forskot á sælun en við fylgjum að sjálfsögðu lögunum þegar að þau koma,“ segir Védís.