Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Færri styðja ríkisstjórnina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar um þrjú prósentustig milli mánaða, en rúmlega 70 prósent landsmanna styðja hana, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Fylgi Framsóknarflokksins dalar um rúm tvö prósentustig.

Breytingar á fylgi flokka milli mánaða eru þó ekki miklar, frá núll komma fjórum til eins prósentustigs, að undanskildu minnkandi fylgi Framsóknarflokksins.

Tæplega tíu prósent segjast myndu kjósa Framsókn, færu kosningar til Alþingis fram í dag, en fylgið var 12 prósent fyrir mánuði. Tæplega 26 prósent segjast nú myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, nær 17 prósent Vinstri græn, liðlega 16 prósent Samfylkinguna, næstum 11 prósent Pírata, rúmlega 7 prósent Viðreisn, tæp 7 prósent Miðflokkinn, fimm komma fimm prósent styðja Flokk fólksins og nær 2 prósent aðra flokka, þar af 1,1 prósent Bjarta framtíð.

Fylgi við ríkisstjórnina minnkar um rúmlega þrjú prósentustig milli mánaða, en 70,6 prósent segjast styðja hana.

Rúm átta prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp. Fimm prósent segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag. Könnunin var gerð dagana 4. til 31. janúar. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður