Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Færri en eyðslusamari ferðamenn

11.09.2019 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Greiningardeild Arion banka kynnti í morgun nýja ferðamannaspá. Samkvæmt henni verður bataferli íslenskrar ferðaþjónustu hægfara, eftir gjaldþrot WOW air. Færri ferðamenn eigi eftir að koma - en þeir sem koma eru líklegri til að dvelja lengur og eyða meira af peningum en áður.

 

Elvar Ingi Möller sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka spáir því að ferðamönnum eigi eftir fjölga um 2% á næsta ári. Ferðamönnum hér á landi hefur fækkað um 17% frá því að WOW air hætti rekstri. Næsta vetur verður sætaframboð til landsins fimmtungi minna en síðustu ár.

„ Í rauninni mun bataferlið, eftir þessa magalendingu í mars þegar rekstur WOW air stöðvaðist, fara frekar hægt af stað. Við erum að gera ráð fyrir að ferðamönnum muni halda áfram að fækka, a.m.k. út fyrsta ársjórðung næsta árs. Við sjáum þau merki í vetraráætlun Isavia. Í öðru lagi erum við ekki að gera ráð fyrir að Icelandair geti vaxið eins mikið og það hefur áætlað á næsta ári jafnvel þótt Max vélarnar fari aftur á loft á þeim tíma sem nú er stefnt að.“ 

Elvar segir greiningardeildina gera ráð fyrir að afhending nýrra véla í flota Icelandair muni tefjast þannig að umsvif félagsins verði í raun mjög sambærileg því sem var á þessu ári.  Þá hafi farþegasamsetning í leiðarkerfi Icelandair breyst mjög mikið.

„Það hefur orðið mjög mikil fjölgun í farþegum sem eru að koma sérstaklega til Íslands á kostnað skiptifarþega. Í þessari grunnsviðsmynd okkar erum við ekki að gera ráð fyrir að það haldi áfram á næsta ári.“

Erna Björg Sverrisdóttir, annar sérfræðingur í greiningardeild bankans, segir rannsóknir bankans á neysluhegðun ferðamanna sýna að hver ferðamaður sem hingað kemur dvelur lengur en áður og eyðir meira af peningum meðan á dvölinni stendur.   

„Við höfum séð að hótelgistinóttum hefur fjölgað frá því í apríl meðan við erum að sjá meiri samdrátt í Airbnb. Þannig að það virðist sem okkur sé að einhverju leyti að takast að fá þessa „betur borgandi" ferðamenn til landsins sem gerir það að verkum að tekjusamdráttur greinarinnar er minni en flestir gerðu ráð fyrir eftir gjaldþrot WOW air.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV