Færa loftslagsmótmæli á samfélagsmiðla vegna veirunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Loftslagsverkfall

Færa loftslagsmótmæli á samfélagsmiðla vegna veirunnar

16.03.2020 - 11:07
Ungt fólk hefur mætt til loftslagsverkfalls við Austurvöll á hverjum föstudegi í meira en ár til að berjast gegn aðgerðarleysi við loftslagsbreytingum. Vegna kórónavírussins verður hætt að efla til fjölmennis á föstudögum í bili en þó verður haldið áfram að mótmæla með öðrum aðferðum.

Hér á Íslandi hefur hópur ungs fólks mótmælt loftslagsbreytingum á hverjum föstudegi undanfarið árí takt við baráttu Gretu Thunberg. Hópurinn sem stendur að baki mótmælunum segir að hlusta þurfi á vísindin til að draga úr neikvæðum afleiðingum. Bæði afleiðingar vegna hamfarahlýnunnar og COVID-veirunnar hafi neikvæð áhrif á heimsvísu. Því þurfi allir að standa saman sem samfélag og taka ábyrgð. Þetta segir í yfirlýsingu frá hópnum sem send var fjölmiðlum í dag. 

„COVID-veiran er að fá miklu meiri athygli, en loftslagsváin er líka lífshættuleg fyrir viðkæma hópa í heiminum. Það er búið að bregðast töluvert við COVID-veirunni en ekki loftslagsvánni. Loftslagsbreytingar hafa miklu meiri langvarandi áhrif á heiminn. Veiran er óhjákvæmileg og gengur yfir en loftslagsbreytingar eru yfirvofandi og við þurfum að reyna að halda okkur undir 1,5 gráðu hækkun,“

segir hópurinn. Þau segja að ríku löndin séu ekki að gera neitt í loftslagsvánni því hún bitnar ekki jafnmikið á þeim strax eins og COVID-19.

Hópurinn segir að þetta ástand sem samfélagið standi frammi fyrir hafi sýnt fram á margt. Almenningur geti unnið meira heima og þurfi þá ekki að fara á bílnum á hverjum degi til vinnu, búið sé að loka löndum sem minnkar flugsamgöngur og fólk sé tilbúið að fresta plönum og hætta við ferðalög. Fólk sé tilbúið að breyta til í sínu daglega lífi ef það átti sig á ógninni.

Mynd með færslu
 Mynd: loftslagsverkfall

Við stólum algjörlega á náttúruna
„Ef ekkert lát verður á losun gróðurhúsalofttegunda á jörðinni horfum við fram á uppskerubresti víða um heim og mörg svæði verða óbyggileg. Sjávarborð hækkar, sjórinn súrnar og fjöldi dýrategunda eru í útrýmingarhættu. Við megum ekki gleyma því að við stólum algjörlega á náttúruna til að veita okkur allt það sem við neytum. Áhrifin sem við sjáum fyrst eru flóttafólk frá óbyggilegum svæðum og aukinn ójöfnuð í heiminum. Seinna meir má búast við stórvægilegum breytingum á náttúrukerfunum og óvíst verður hvort við getum haldið áfram að stóla á fiskinn í sjónum og ferðamannastrauminn sem hingað kemur til að njóta náttúrunnar,“ segir hópurinn.

Nú er komin upp sú staða að þau geti ekki fjölmennt á föstudögum í bili, þau ætla þó að halda áfram að mótmæla. Hægt er að birta mynd af sér með myllumerkinu #climatestrikeonline eða #loftslagsverkfallánetinu til að vekja áfram athygli á hamfarahlýnun á samfélagsmiðlum.