Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fær milljónir í styrk fyrir efni um flóttamenn

Mynd með færslu
Hópur flóttamanna frá Sýrlandi sem kom hingað til lands í byrjun ársins. Mynd: RÚV

Fær milljónir í styrk fyrir efni um flóttamenn

30.01.2016 - 16:54

Höfundar

Heimildarmyndaþáttaröð sem Árni Gunnarsson, fyrrverandi formaður flóttamannaráðs, ætlar að gera um þróunaraðstoð Íslands við flóttafólk úti og aðlögun þeirra flóttamanna sem hingað eru komnir frá Sýrlandi hefur fengið sex milljónir í styrk frá ríkinu - 3 milljónir frá þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og 3 milljónir frá ríkisstjórninni. Ekki var sótt um styrk í kvikmyndasjóð Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Forseti BÍL setur spurningamerki við styrk ríkisstjórnarinnar.

Framleiðandi myndarinnar er Árni Gunnarsson - hann er einnig fyrrverandi aðstoðarmaður Páls Péturssonar, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, og er sömuleiðis fyrrverandi varaþingmaður flokksins.

Árni hefur á undanförnum árum gert heimildarmyndir - var meðal annars tilnefndur til Edduverðlauna 2010 og fékk 8 milljónir í styrk úr kvikmyndasjóði fyrir heimildarmyndina Ein af strákunum samkvæmt yfirliti á vefsíðu sjóðsins. Sú mynd er enn í vinnslu.

Verkefnið spannar ár

Fréttastofa óskaði eftir umsókn Árna fyrir styrknum frá forsætisráðuneytinu. Þar kemur fram að þegar hafi verið myndaður undirbúningur fyrir komu flóttafólksins til Akureyrar í samvinnu við heimamenn.

Gert sé ráð fyrir að verkefnið spanni ár og ljúki með heimildarmynd, ásamt kennslumyndbandi fyrir grunnskóla. Efnið verði einnig boðið til nýtingar í magasínþætti í sjónvarpi og fréttum.

Enn fremur segir í umsókninni að verkefnið hafi þegar hlotið styrk frá Þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins upp á þrjár milljónir.

Í viðbótarupplýsingum kemur fram að verkefnið hafi stækkað að umfangi  - þetta verði tveir sjónvarpsþættir upp á 40 til 50 mínútur og svo rúmlega klukkutímalöng heimildarmynd sem sé meðal annars hugsuð til sýninga á kvikmyndahátíðum erlendis. Að auki verður gert námsefni í samfélagsfræði fyrir 9. til 10. bekk.

Of skammur tími 

Árni segir í samtali við fréttastofu að hann hafi sótt um styrki hjá nokkrum menningarsjóðum, meðal annars hjá menningarsjóði Norðurlands vestra og eystra, hjá Akureyrarbæ og að öllum líkindum verði sótt um styrk úr menningarsjóði KEA. Hann segir að kostnaðaráætlun myndarinnar hljóði upp á 11 milljónir.

Árni segir að hann hafi ekki sótt um styrk úr kvikmyndasjóði Kvikmyndamiðstöðvar þar sem slíkt hefði einfaldlega tekið of langan tíma - hann taki sér þrjá mánuði til að svara erindum og þá hefði hann einfaldlega fallið á tíma. Ef hann hefði haft tíma hefði hann eflaust sótt um styrk úr kvikmyndasjóði.

Kolbrún Halldórsdóttir, forseti Bandalags íslenskra listamanna, setur spurningarmerki við styrkveitingu ríkisstjórnarinnar í samtali við fréttastofu og telur hana orka tvímælis. „Ríkisstjórninni er auðvitað í sjálfsvald sett hvernig hún fer með sína fjármuni - það hefði hins vegar verið betra að setja þessa umsókn í faglegan farveg,“ segir Kolbrún - heppilegra hefði verið að senda hana til umfjöllunar hjá kvikmyndasjóði Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Fékk ekki styrk fyrir Öldinni hennar

Hrafnhildur Gunnarsdóttir, heimildamyndagerðarmaður og formaður Félags kvikmyndagerðarmanna, telur styrk ríkisstjórnarinnar óvenjulegan -  það verði að teljast ánægjuefni ef hægt sé að leita til ríkisstjórnarinnar með heimildarmyndir.

Hún bendir á að leitað hafi verið til menntamálaráðuneytisins til að fá það til að styrkja heimildarmyndaþáttaröðinni „Öldin hennar“ sem gerð var í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Sá styrkur fékkst ekki. Sú þáttaröð fékk fjármagn frá afmælisnefnd sem Alþingi setti á fót í tilefni af tímamótunum - sá styrkur reyndist hins vegar ekki nóg.

Hrafnhildur segir að það sé greinilegt að þetta sé mikilvægt málefni fyrir forsætisráðuneytið. Styrkurinn sem myndin hafi fengið sé hár í ljósi þess hvaðan hann kemur.

Rúmar reglur um styrkveitingar ríkisstjórnarinnar

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir í samtali við fréttastofu að reglurnar séu rúmar um hvernig peningum sé ráðstafað af þessum kostnaðarlið ríkisstjórnarinnar.

Jóhannes bendir enn fremur á að ríkisstjórnin hafi áður lagt sitt af mörkum til menningarverkefna - til að mynda fékk barnaóperan Baldursbrá styrk upp á 1,5 milljón fyrir sýningu - hún hafði fengið lofsamlega dóma. Uppsetningin var samstarfsverkefni Litla óperukompanísins, Íslensku óperunnar og Hörpu. 

Ríkisstjórnin styrkti einnig óperuna Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson um þrjár milljónir þannig að hægt væri að taka hana upp. Áætlaður kostnaður við hljóðritun verksins var 14,6 milljónir. Íslenska óperan fékk auk þess tvær milljónir til að standa straum af kostnaði við uppsetningu verksins í Hörpu. 

 

 

Tengdar fréttir

Innlent

Sigmundur Davíð á leið til Líbanon