Fær loksins að heita Sigríður

10.07.2019 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigríður Hlynur, bóndi á Öndólfsstöðum í Reykjadal, hefur fengið nafni sínu breytt hjá Þjóðskrá Íslands á grundvelli nýrra laga um kynrænt sjálfræði. Sigríður, að skírnarnafni Sigurður Hlynur Snæbjörnsson, heitir nú Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson. Mál hans hefur vakið athygli að undanförnu.

Sigríður Hlynur segir að breytingin hafi verið lítið mál eftir að nýju lögin tóku gildi. „Ég fékk bara greiðsluseðil í gær í heimabankann minn og borgaði hann í gærkvöldi,“ segir hann í samtali við fréttastofu. Hann fékk svo tölvupóst til staðfestingar í morgun og þar með hefur breytingin gengið í gegn. Hún kostaði um 9.000 krónur. 

Sigríður segir að hann hafi viljað fá að heita nafninu sem honum var ætlað frá upphafi. Hann vildi fá að heita eftir ömmu sinni. Auk þess segist hann nú stoltur af því að vera kenndur við mömmu sína en hann bætti kenninafninu Helguson við nafn sitt. 

Hann segir að enn hafi ekki reynt á hvort fólk ruglist í ríminu vegna nafnabreytingarinnar. „Það hefur svo sem ekki reynt á það ennþá en ég held að það sé bara ágætt fyrir fólk að venjast einhverju nýju annað slagið. Ég held að það hafi allir gott af því að það sé aðeins hrært í þeim,“ segir hann. 

Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, segir að tíu umsóknir hafi borist um breytingu á skráningu kyns. Þá er einnig óskað eftir nafnabreytingu í öllum umsóknunum nema einni. Sigríður Hlynur sé þó sá eini sem hafi óskað eftir nafnbreytingu einni og sér. 

Börn eru almennt kennd við eiginnöfn foreldra sinna. Börn sem fæðast eftir nafnabreytingu einstaklinga bera sjálfkrafa ný nöfn foreldra sinna að kenninafni.

Hins vegar breytast ekki sjálfkrafa kenninöfn barna þeirra foreldra sem breyta nafni sínu eftir að þau hafa fæðst. Það þarf sérstaklega að óska eftir því, útskýrir Margrét. Hún segir að farið verði í lögfræðilega rýni á þessum tilvikum hjá Þjóðskrá Íslands. „Auðvitað er lógískt að kenninafn eigi að breytast samhliða breytingu nafns foreldris,“ segir hún. 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi