Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fær ekki tvö minnisblöð um aðgerðir Isavia gegn WOW

08.02.2020 - 13:11
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest ákvörðun Isavia sem synjaði beiðni blaðamanns um aðgang að tveimur minnisblöðum um aðgerðir félagsins gegn WOW air. Nefndin féllst á þau rök að minnisblöðin fælu í sér „lögfræðilega álitsgerð,“ vegna dómsmála. Dómsmál Isavia gegn íslenska ríkinu og ALC verður þingfest á fimmtudag í næstu viku.

Minnisblöðin tvö voru lögð fram á stjórnarfundi Isavia í september 2018.  Þau snerust annars vegar um hvort greiðslufrestur á gjöldum WOW gæti talist ríkisstyrkur og um heimildir Isavia til kyrrsetningar.

Voru viðbúnir dómsmáli

Þegar blaðamaðurinn óskaði eftir minnisblöðunum var honum tjáð að annað þeirra hefði verið tekið saman í tilefni dómsmáls milli Isavia og bandaríska leigufélagsins ALC vegna farþegaþotunnar TF- GPA sem var kyrrsett eftir gjaldþrot WOW. Þetta taldi blaðamaðurinn ekki standast því dómsmálið hefði verið höfðað rúmlega hálfu ári eftir að skjalið var lagt fyrir stjórnarfundinn.

Isavia sagði í umsögn sinni til úrskurðarnefndarinnar að stjórn félagsins hafi staðið frammi fyrir ákvörðunum sem tengdust rekstri Isavia og viðskiptavinum þess. Viðbúið hafi verið að sú ákvörðun, sem staðið hafi verið frammi fyrir, myndi enda hjá dómstólum. 

Einstakt mál

Isavia hafi því óskað eftir sérfræðiáliti á því hvernig það gæti brugðist við og hvaða varnir það gæti haft upp í deilum um heimild félagsins til að veita greiðslufrest og beita stöðvunarheimild. 

Þetta hafi verið einstakt mál, aðdragandi að falli WOW air og kyrrsetningin sem farið hafi fram í kjölfarið.   Í minnisblaðinu um kyrrsetningarheimildina sé að finna álit lögmanns um veikleika heimildarinnar auk rökstuðnings fyrir beitingu hennar. Mjög slæmt og óeðlilegt væri að vegna yfirstandandi dómsmáls þyrfti annar málsaðila að þola það að varnir hans yrðu gerðar opinberar.

Stefna Isavia þingfest í næstu viku

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram stefna Isavia gegn íslenska ríkinu og ALC hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun janúar. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var stefnan birt ríkislögmanni og ALC í desember og verður málið þingfest í lok næstu viku.

Í stefnunni er dómari við Héraðsdóm Reykjaness borin þungum sökum en Isavia telur hann hafa sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Þess er krafist að ríkið verði dæmt til að greiða Isavia 2,2 milljarða í bætur.