Fær ekki aðgang að Panamaskjölunum

04.08.2017 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur vísað frá kröfu Kára Arnórs Árnasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins Stapa, sem vildi fá aðgang að gögnum sem tengdust honum og voru notuð til umfjöllunar í Kastljósi fyrir rúmu ári. Nefndin taldi sig ekki hafa forsendur til að rengja þá fullyrðingu að RÚV væri ekki með gögnin heldur hefði fengið aðgang að þeim hjá þriðja aðila við vinnslu fréttarinnar.

Kári var í hópi þeirra sem kom fyrir í Panamaskjölunum -  umfangsmiklum leka frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca.  

Í umfjöllun Kastljóss upp úr skjölunum kom fram að Kári var skráður eigandi og prókúruhafi félagsins Utvortis Limited sem skráð var á Tortóla í árslok 2004. Margeir Pétursson, þáverandi eigandi og stjórnandi MP-fjárfestingabanka, hafði milligöngu um stofnun aflandsfélagsins.

Í þættinum kom einnig fram að aflandsfélagið Hola Holding, sem stofnað var af Kaupþingi árið 1999 fyrir Kára Arnór, hefði fengið tugi milljóna í lán frá sama banka. Kári kvaðst ekki hafa vitað um þessi umsvif félagsins.

Kári segir í kæru til úrskurðarnefndarinnar að í umfjöllun Kastljóss hafi komið fram upplýsingar um fjárfestingar sem sumar hafi verið honum ókunnar og hann hafi aldrei haft upplýsingar um. Hann hafi þurft að segja starfi sínu lausu og því sé einsýnt að upplýsingarnar varði mikilvæga einkahagsmuni hans. Mikilvægt sé að fá þessa upplýsingar sem hafi haft mikil áhrif á einkahagi hans. 

RÚV svaraði þessari kæru og sagðist ekki hafa umrædd gögn né forræði yfir þeim heldur hefði fengið aðgang að gögnunum hjá þriðja aðila. Kastljós væri bundið af reglum samstarfs við Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ. Kastljósi væri óheimilt að láta gögn úr gagnagrunni þeirra af hendi þótt leyfilegt hafi verið að sýna þau í umfjölluninni og vísa til þeirra.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði engar forsendur til að rengja þessa fullyrðingu RÚV og var kæru Kára því vísað frá.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi