Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fær ekki að fylla upp í skurði

Mynd: RÚV / RÚV
Landeigandi á Fífustöðum í Ketildölum vill endurheimta votlendi á jörðinni sinni. Vesturbyggð heimilar ekki framkvæmdina. Votlendissjóður segir viðbrögð sveitarfélagsins þvert á öll önnur sveitarfélög. Bóndi á næsta bæ segir sér ekki stætt ef land Fífustaða fer í endurheimt votlendis.

Ragnheiður Guðmundsdóttir hefur átt Fífustaði í um tuttugu ár og dvelur þar á sumrin. Á landi Fífustaða eru yfir 60 ára gamlir skurðir á 57 hektara landi. Samkvæmt Votlendissjóði losar land Fífustaða yfir 11 hundruð tonn af koltvísýringi á ári sem yrði stöðvað með endurheimt votlendis. Samningur við Votlendissjóð um endurheimt votlendis var tilbúinn til undirskriftar þegar Vesturbyggð heimilar ekki framkvæmdina.

„Ég held að engum hefði dottið í hug að það væri vandamál gagnvart sveitarfélaginu að fá þetta gert, vegna þess að allir eru núna á einu máli um það að það eigi að gera allt sem hægt er til að bæta loftslagið og endurheimta votlendi og minnka koltvísýringsútblástur á öllum stöðum,“ segir Ragnheiður.

Telja framkvæmdina tilkynningarskylda

Vesturbyggð beinir Votlendissjóði til Skipulagsstofnunar þar sem sveitarfélagið telur framkvæmdina tilkynningarskylda og segist ekki geta mælt með endurheimt votlendis á Fífustöðum. Þá vanti einnig stefnumótun innan sveitarfélagsins um endurheimt votlendis.

„Að svo stöddu getum við ekki tekið beiðni Votlendissjóðs um þessa tilteknu framkvæmd til afgreiðslu. Þar með er ekki sagt að sveitarfélagið sé alfarið á móti framkvæmdinni. Við erum að leiðbeina sjóðnum um það að það þurfi að bera þessa tillögu að framkvæmd undir Skipulagsstofnun og hvort að, vegna umfangs, það þurfi að fara með þetta í umhverfismat,“ segir Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Mynd með færslu
Skurðirnir á Fífustöðum eru yfir 60 ára gamlir

Fara fram á rökstuðning

Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, segir viðbrögð Vesturbyggðar úr takti við viðbrögð allra annarra sveitarfélaga. Sjóðurinn hefur óskað eftir rökstuðningi við synjun sveitarfélagsins og hyggst sækja um framkvæmdaleyfi fyrir endurheimtinni.

Neyðist til að hætta búskap ef endurheimt fer fram

Víðir Hólm Guðbjartsson er sauðfjárbóndi í Grænuhlíð í Ketildölum. Hann beitir fé sínu á landi Fífustaða að vori og hausti. Hann segir að ef endurheimt votlendis fer fram á Fífustöðum neyðist hann til að hætta búi.

„Þetta er aðalhaust og –vorbeitin mín. Féð er vant að vera þarna. Ef þessu verður drekkt verður mér ekki fært að búa. Þá get ég ekki farið og smalað, komið smölunum fram dalinn. Þetta er bara útilokað.“

Ragnheiður segist enn vilja endurheimta votlendi á jörðinni þrátt fyrir tafir.

„Þú ert með ellefu hundruð tonn af koltvísýringi sem fer út á ári þannig að hvert ár sem líður, þá erum við með eitthvað sem þurfti ekki að gerast.“