Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fær ekki að bera nafnið Kona

29.05.2019 - 07:39
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Elín Eddudóttir fékk í gær synjun frá Mannanafnanefnd við þeirri beiðni sinni að fá að bera nafnið Kona. Að hennar mati var rökstuðningur nefndarinnar óljós og hefur því hún óskað eftir frekari útskýringum á því hvers vegna beiðninni var hafnað.

Elín kveðst oft vera spurð að því hvort hún heiti bara Elín. Hún hafi velt því fyrir sér að taka upp annað eiginnafn. Árið 2014 las hún viðtal við Kristbjörgu Kristjánsdóttur á Vísi sem sagðist þá hafa verið neitað tvisvar sinnum um að fá að bera nafnið Kona. „Ég hugsaði með mér að þetta væri kúl nafn og að mig langaði að heita þetta. Svo sótti ég um en fékk ekki,“ segir Elín. „Ég ætla ekki að una þessu og er búin að senda mannanafnanefnd svar.“

Í úrskurðinum sem Elín fékk sendan í gær segir að nafnið Kona brjóti í bága við 5. gr. laga númer 45/1996 og því ekki mögulegt að fallast á það. Samkvæmt þeirri lagagrein skal eiginnafn geta tekið íslenska eignarfallsendingu og hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það má ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og skal vera ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Þá skal gefa stúlkum kvenmannsnöfn og drengjum karlmannsnöfn og skal nafnið ekki vera þeim sem ber það til ama. 

Orðið kona er samnafn og notað um kvenmann á ákveðnum aldri, segir í úrskurðinum. Ekkert ákvæði í mannanafnalögum banni þetta berum orðum og nokkur orð í þessum merkingarflokki sem tákni manneskju séu á mannanafnaskrá og í þjóðskrá svo sem Karl, Sveinn og Drengur. Þau eigi sér langa sögu í tungumálinu, sum þeirra komi fyrir í fornritum, eru í öðrum norrænum málum og hafi þannig áunnið sér hefð sem eiginnöfn. Hins vegar hafi orðin maður, piltur strákur, karlmaður, kvenmaður, kona, kerling, mær, stúlka og stelpa ekki verið notuð sem eiginnöfn og verði að teljast að nöfn af því tagi séu ekki í samræmi við þær reglur sem unnið hafi sér hefð íslensku máli og brjóti gegn íslensku málkerfi, segir í úrskurðinum, sem Elín hefur, eins og áður sagði, óskað eftir frekari skýringum á. 

 

Fréttin hefur verið uppfærð þar sem ekki var rétt farið með hugtök og slegið saman hugtökunum eiginnafn og millinafn.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir