Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fækkun rúma á geðdeild óásættanleg

14.10.2019 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Geðdeild er komin að sársaukamörkum vegna fækkunar legurýma að mati framkvæmdastjóra geðsviðs. Viðhald á húsnæði geðdeildarinnar gæti orðið 1,6 milljarðar króna. Velferðarnefnd Alþingis fékk kynningu á stöðu geðdeildar Landspítalans í morgun. 

„Við erum komin að sársaukamörkum varðandi fækkun rúma. Okkur er farið að vanta allavega fimm til tíu rúm í viðbót. Það er allt of mikil nýting á geðdeildum. Upp í 115% sem er allt of mikil meðalnýting,“ segir María sem bendir jafnframt á að eðlileg meðalnýting væri 85-90%. 

Staðan er verst á móttökugeðdeildinni og fíkni- og bráðageðdeild. „Þar eru nýtingatölur svona háar sem er algjörlega óásættanlegt.“

Göngudeildir hafa verið efldar til að mæta þjónustuþörfinni. Á fundi með velferðarnefnd hafi ástand húsnæðis mikið verið rædd. „Það er búið að taka í gegn tvær og hálfa deildir á geðþjónustunni. Það er enn þá eftir fimm og hálf. Það kostar hátt í 300 milljónir að taka hverja deild í gegn,“ segir María jafnframt.

Helga Vala Helgadóttir formaður nefndarinnar segir umhugsunarvert að rúmum sé að fækka fyrir jafn mikilvæga þjónustu. „Við munum kalla eftir upplýsingum frá ráðherra um geðheilbrigðisáætlun sem er víst einhvers staðar í pípunum. hvort við þurfum ekki aðeins að spýta í lófana hvað þetta varðar. Þetta er einhvern veginn sá hluti heilbrigðiskerfisins sem við vanrækjum. Ég veit ekki hvort það eru gamlir fordómar sem valda því eða hvað það er.“