Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fækkun ferðamanna dregur úr bjórsölu

14.06.2019 - 11:41
Bjórglas á bjórtunnu.
 Mynd: Stocksnap.io
Samdráttur er í sölu bjórs vegna fækkunar ferðamanna. Stærri ferðamannastaðir eru augljóslega að kaupa minna, segir Gunnar B. Sigurgeirsson aðstoðarforstjóri Ölgerðarinnar.

Gunnar efast um að það verði breyting á þessu í sumar en markaðurinn sé þó að taka við sér og hann sé því bjartsýnn á sumarið.

Hann segir hjálpa til að Íslendingar séu minna að ferðast til útlanda miðað við í fyrra en þá hafi nánast mátt tala um landflótta. Það ásamt góða veðrinu vinni aðeins upp á móti fækkun ferðamanna.

Árið fór rólega af stað

Áki Sveinsson markaðsstjóri hjá Coca-Cola European Partners segir sala hafi farið rólega af stað í ár og að það hafi klárlega verið minna að gera í mars og apríl. Hann telur að veitingastaðir í Reykjavík finni fyrir því að það séu „færri túristar í bænum“. 

Hann tekur í sama streng og Gunnar og segir blíðviðrið hjálpa til, sumarbjórinn hafi nánast selst upp. Nú virðist sem viðsnúningur sé að verða og júní byrjaði vel.   

ÁTVR virðist ekki hafa fundið fyrir fækkun ferðamanna en sala á bjór hefur aukist milli ára miðað við sölu frá janúar til júní í fyrra. Fyrirtækið heldur ekki sérstaklega utan um tölur yfir erlenda kreditkortaveltu í verslunum þess. Því er ekki ljóst hvort Íslendingar og sumarblíðan séu ástæða aukningarinnar.

Áki segir bjórþyrsta Íslendinga virðast leita meira í svalandi sumarbjóra í góðviðrinu og bætir við að vonandi eigi veðrið eftir að halda áfram að leika við okkur, „enda finnst okkur við eiga það inni eftir erfitt sumar í fyrra.“