Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fækka flugferðum til og frá Akureyri

26.12.2015 - 19:33
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Þegar að nýjar flugvélar Flugfélags íslands verða teknar í notkun í innanlandsflugi í vor fækkar áætlunarferðum á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Framkvæmdastjóri Flugfélagsins segir þetta ekki fela í sér þjónustuskerðingu þar sem aukið sætaframboð verður á álagstímum miðað við það sem er í dag.

Þrjár  Bombardier Q400 sem taka 74 farþega munu leysa fimm Fokkera, sem taka 50 farþega, af hólmi í innanlandsfluginu í vor. Gert er ráð fyrir að fyrsta vélin verði komin í áætlunarflug í febrúar og hinar tvær í mars og apríl. Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands segir að þegar að allar vélarnar verði komnar í notkun fækki flugferðum í áætlunarflugi á milli Akureyra og Reykjavíkur. 

„Það felst aðallega í því að lágmarkstíðini á Akureyri verður eftir þessa breytingu verður fjórar ferðir á dag en er í dag um fimm ferðir á virkum dögum.En síðan auðvitað erum við með marga daga þar sem meira er að gera allt upp í tíu ferðir og jafnvel fleiri á dag þannig að það verður þá einhver fækkun þar líka.“

Árni segist ekki telja að með þessu sé verið að skerða þjónustu við farþega á þessari leið. Áfram verði boðið upp á morgun, hádegis, eftirmiðdags og kvöldflug.

Þannig að við sjáum ekki fram á að þetta hafi mikil áhrif til skerðingar á þjónustu heldur frekar í hina áttina því að á álagstímum þá höfum við fleiri sæti í boði heldur en við höfum í dag.

Árni segir að til lengri tíma litið séu vélarnar vissulega hagkvæmari í rekstir en fjárfestingin fyrir félagið sé umtalsverð til að byrja með.

Við gerum ekki ráð fyrir því að þetta hafi áhrif á verð hvorki til hækkunar né lækkunar almennt séð, það verða hlutfallslega fleiri sæti í boði á lægri fargjöldum í hverri ferð vegna stærðarhlutfalla en heilt yfir hefur þetta ekki áhrif á fargjöldin hjá okkur.

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV