Fæðubótarefni koma ekki í veg fyrir COVID-19

27.03.2020 - 13:51
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Mjólkursýrugerlar, B, C og D-vítamín, selen, joð og fleira. Gefið hefur verið í skyn eða jafnvel fullyrt að þetta og fleiri bætiefni geti eflt ónæmiskerfið og komið í veg fyrir sýkingar. Matvælastofnun hefur séð ástæðu til að senda frá sér tilkynningu þar sem segir að auglýsingar að undanförnu um að ákveðnar vörur komi í veg fyrir kórónuveirusmit séu rangar og villandi. Stofnunin varar við slíku.

„Fæðubótarefni eru matvæli og ekki má eigna þeim þá eiginleika að fyrirbyggja sýkingar eða lækna sjúkdóma. Þetta gildir einnig um matvæli almennt,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Það sé þó vissulega rétt að virkt ónæmiskerfi skipti höfuðmáli til að verjast sýkingum. Hins vegar sé engin ofurfæða eða fæðubótarefni sem geti komið í veg fyrir sýkingu af völdum kórónuveira.

Bent er á að góð næring skipti miklu máli fyrir eðlilega starfsemi ónæmiskerfisins. Langflestir landsmenn uppfylli næringarþarfir sínar með góðu og fjölbreyttu fæði. 

Þá bendir Matvælastofnun á tilmæli landlæknis en í þeim er fólk hvatt til að borða meira af grænmeti, ávöxtum og fiski og heilkorna mat. Einnig að minnka sykurát og neyslu á mettaðri fitu, salti og mikið unnum vörum.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi

Tengdar fréttir