
Framkvæmdaskýrsla Landslæknis um heilsu og líðan Íslendinga árið 2012 varpar nokkuð forvitnilegu ljósi á matarvenjur Íslendinga og ekki síst hversu ólík viðhorf kynin hafa til matar.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að 13 prósent þeirra karla sem tóku þátt í könnuninni borða skyndibita tvisvar til þrisvar í viku en aðeins 5,8 prósent kvenna. Munurinn er einnig greinilegur þegar spurt var um sykraða gosdrykki - rúmlega 17 prósent karla sögðust aldrei drekka slíka drykki en 34 prósent kvenna.
Íslendingar eru nokkuð duglegir að fá sér morgunmat sem almennt er talin mikilvægasta máltíð dagsins - 74 prósent karla sem tóku þátt fengu sér morgunmat á hverjum degi, 84 prósent kvenna.
Afstaða kynjanna til þess hversu sátt þau eru með eigin matarvenjur eru nokkuð svipuð - 58 prósent karlmanna eru mjög eða nokkuð sáttir við sínar matarvenjur, 54 prósent kvenna.
72 prósent karla segjast reyna borða hollan mat en 87 prósent kvenna.
Í skýrslunni var einnig spurt um viðhorf fólks til eigin líkamsþyngdar. 38 prósent kvenna eru mjög eða nokkuð ánægðar með sína líkamsþyngd - 48 prósent karla. 45 prósent kvenna eru frekar eða mjög ósáttar með eigin líkamsþyngd, tæplega þriðjungur karla.
Í skýrslunni var einnig spurt hvort þátttakendur hefðu reynt að létta sig eða þyngja síðastliðna tólf mánuði. Tæplega 5 prósent karla sögðust vera að reyna að þyngja sig, aðeins 1 prósent kvenna. 28 prósent karla sögðust vera að reyna létta sig, 41 prósent kvenna.