Fá líklega ríkisborgararétt ef þau sækja um

14.12.2015 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vilji er innan allsherjarnefndar Alþingis að veita veikum albönskum dreng og fjölskyldu hans ríkisborgararétt. Búist er við umsókn frá fjölskyldunni í dag. Drengurinn er haldinn svokölluðum slímseigjusjúkdómi sem er erfðasjúkdómur sem dregur fólk til dauða. Mikil umræða hefur verið um niðurstöðu Útlendingastofnunar um að synja umsókn þeirra um hæli hér á landi í ljósi heilsufarsaðstæðna drengsins.

Lögmaður fjölskyldunnar hefur sagt að það hefði átt að veita þeim dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Hart hefur verið deilt á stjórnvöld - en Ólöf Nordal innanríkisráðherra bendir á að lagalega geti hún ekki breytt ákvörðun Útlendingastofnunar. Útlendingastofnun segir að lagalega sé henni ekki stætt á öðru en að synja umsókninni. Kærunefnd fékk málið ekki til sín þar sem fjölskyldan dró kæruna til baka og var í kjölfarið send til Albaníu.

Bobby Fisher og Jóel fordæmin
En nú virðast stjórnmálin hafa tekið við sér og samkvæmt heimildum fréttastofu hafa velunnarar fjölskyldunnar komið boðum til fjölskyldunnar um að velvilji sé fyrir hendi hjá Alþingi um að veita fjölskyldunni ríkisborgararétt. Alþingi veitir árlega ríkisborgararétt vegna sérstakra aðstæðna og allsherjarnefnd er einmitt þessa dagana á lokametrunum með að skila af sér tillögum um nafnalista.

Heimildir fréttastofu herma að búist sé við því að fjölskyldan sendi inn umsókn í dag og að henni verði vel tekið þótt frestur til þess sé fyrir löngu útrunninn. Alþingi hefur aðeins tvisvar veitt einstaklingum ríkisborgararétt sem ekki eru staddir hér á landi. Annars vegar í tilviki drengsins Jóels sem kom frá Indlandi og varð til með aðstoð erlendrar staðgöngumóður og hinsvegar þegar Alþingi samþykkti sérstakt frumvarp um að veita skákmeistaranum Bobby Fisher ríkisborgararétt.

Viðmælendur fréttastofu benda á að þótt vilji sé hjá allsherjarnefnd til að veita albönsku fjölskyldunni ríkisborgararétt þá þurfi að kalla eftir gögnum frá Útlendingastofnun og nefndin þurfi síðan að skoða umsóknina með sama hætti og aðrar umsóknir. Með þessu ferli sé hægt að veita fjölskyldunni rétt til að vera hér á landi án þess að sett sé sérstakt fordæmi í hæliskerfinu sem menn telja sér ekki stætt á að setja.

Önnur albönsk fjölskylda með hjartveikan dreng var einnig send úr landi. Heimildir fréttastofu herma að sæki hún um sé líklegt að allsherjarnefnd samþykki þá umsókn nema hún uppfylli ekki skilyrðin af öðrum ástæðum.